Viðskipti innlent

Segir skilið við SVÞ eftir sex­tán ár í starfi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Andrés Magnússon hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Andrés Magnússon hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Vísir/Vilhelm

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu hefur ákveðið að segja skilið við við samtökin í haust. Auglýst hefur verið eftir nýjum framkvæmdastjóra og stefnt á að hann taki við 1. september næstkomandi.

„1. júní er ég búin að vera hérna sextán ár. Það er bara orðinn ágætis tími í starfi eins og þessu þannig að það er meginástæðan fyrir því að ég ákveð að láta gott heita,“ segir Andrés í samtali við fréttastofu. 

Hann segist ekki búinn að ákveða hvað taki við hjá sér. 

Auglýst hefur verið fetir nýjum framkvæmdastjóra hjá SVÞ.

„Maður náttúrulega yngist ekki en ég er svo sem ekki búinn að ákveða nein smáatriði. Ég stíg formlega til hliðar 1. september næstkomandi og svo er ég búinn að skuldbinda mig til að vera viðloðandi í einhvern tíma eftir það, til að tryggja að yfirfærslan verði svo best verði á kosið. Þannig að þetta er allt gert í miklu bróðerni,“ segir Andrés. 

Auglýsingar eftir nýjum framkvæmdastjóra hafa birst á samfélagsmiðlum og er umsóknarfrestur 2. apríl næstkomandi. 

„Það er eðlilegasti hlutur í heimi að fólk skipti eftir svona langt starf. Við erum hér í Húsi atvinnulífsins og ég er með lang lengstan starfsaldur allra minna kollega í húsinu,“ segir Andrés. 

„Það eru alltaf tímamót þegar maður tekur svona ákvörðun og þegar maður hættir í starfi sem er búinn að vera svona stór partur af manni í svona langan tíma. Ég hef allan minn starfsaldur verið tengdur atvinnulífinu. Áður var ég framkvæmdastjóri þess sem nú heitir Félag atvinnurekenda. Svo var ég í mörg ár lögmaður þess sem nú heitir Samtök iðnaðarins. Þannig að ég hef verið tengdur íslensku atvinnulífi og gætt hagsmuna fyrir íslenskt atvinnulíf lengi. Þetta er orðinn ágætis tími.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×