Enski boltinn

Vill að fjöl­miðlar hætti að taka sig upp ræða við leik­menn sína

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep Guardiola að segja Jack Grealish til.
Pep Guardiola að segja Jack Grealish til. Justin Setterfield/Getty Images

Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, er þekktur fyrir miklar tilfinningar á hliðarlínunni. Þá á hann það til að ræða við, og jafnvel gagnrýna, leikmenn beint eftir leik á meðan allar myndavélar heimsins eru á honum.

Guardiola var spurður af hverju hann biði einfaldlega ekki með að ræða við leikmenn sína þangað til þeir væru komnir inn í göngin sem liggja að búningsklefum leikvanganna því þar væri nú engar myndavélar að finna.

Líkt og svo oft áður svaraði Guardila á sinn einstaka kaldhæðna hátt:

„Ég er frægasta manneskjan í liðinu, ég þarf myndavélararnar til að fæða egóið mitt svo ég geti sofið vært og liðið vel með sjálfan mig.“

„Það er ástæðan fyrir því að ég reyni að gagnrýna leikmennina út á vellinum og láta þá vita hversu lélegir þeir hafa verið. Sérstaklega þegar Erling Håland hefur skorað þrennu, þá verður fólk að hrósa mér en ekki þeim.“

„Myndavélarnar eru ástæðan fyrir að ég geri það þarna. Mitt ráð er að eftir næsta leik, ekki taka okkur upp og þá verða engin vandamál.“

Manchester City er sem stendur í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Liverpool þegar það eru níu umferðir til loka tímabilsins. Lærisveinar Pep mæta Aston Villa í kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×