Fótbolti

Ronaldo hlóð í þrennu annan leikinn í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo getur ekki hætt að skora.
Cristiano Ronaldo getur ekki hætt að skora. Yasser Bakhsh/Getty Images

Cristiano Ronaldo hlóð í enn eina þrennuna er Al Nassr vann 8-0 risasigur gegn Abha í sádiarabísku deildinni í knattspyrnu í gær. Þetta var annar leikurinn í röð sem Ronaldo skorar þrennu.

Þrátt fyrir að vera orðinn 39 ára gamall virðist ekkert vera að hægjast á markaskorun hjá Ronaldo sem nú er kominn með 43 mörk í 40 deildarleikjum fyrir Al Nassr. Hann kom gestunum í 2-0 með tveimur aukaspyrnumörkum gegn Abha í gær áður en Sadio Mane bætti þriðja markinu við eftir rétt rúmlega hálftíma leik.

Ronaldo fullkomnaði svo þrennuna á 42. mínútu með snyrtilegri vippu áður en hann lagði sjálfur upp fimmta mark Al Nassr tveimur mínútum síðar.

Þeir Ronaldo og Mane voru svo teknir af velli í hálfleik, en gestirnir bættu þremur mörkum við í síðari hálfleik og unnu því að lokum 8-0 risasigur.

Eins og áður segir var þetta annar leikurinn í röð sem Ronaldo skorar þrennu í, en hann gerði það einnig í 5-1 sigri gegn Al Taee síðastliðinn laugardag. Ronaldo hefur nú skorað 65 þrennur á ferlinum og er sá leikmaður sem er enn að spila sem er kominn með flestar þrennur á ferlinum. Lionel Messi kemur næstur með 57 stykki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×