Erlent

Eins og hálfs árs úr­koma á einum sólar­hring í Dubai

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Flætt hefur yfir vegi og inn í hús.
Flætt hefur yfir vegi og inn í hús. AP/Jon Gambrell

Gríðarlega mikil úrkoma hefur fallið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í vikunni, sú mesta í 75 ár. Einn er látinn, 70 ára maður, í Ras Al-Khaimah.

Átján léstust í flóðum í Óman á sunnudag og mánudag.

Regnfallið hófst á mánudagskvöld og nam 142 millimetrum í Dubai sólahring síðar. Um er að ræða úrkomumagn sem venjulega fellur á einu og hálfu ári. Meðalúrkoma á einu ári, mæld á flugvellinum í Dubai, er 94,7 millimetrar.

Rigning er almennt fátíð í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en tíðust yfir vetrarmánuðina. Íbúar eru því illa undirbúnir fyrir þær aðstæður sem sköpuðust í gær, þegar flæddi inn í hús og fólk neyddist til að yfirgefa bifreiðar sínar úti á vegum, þar sem niðurföll eru af skornum skammti.

Það flæddi inn í báðar flottustu verslanamiðstöðvar Dubai, auk þess sem ökkladjúpt vatn safnaðist fyrir á einni af neðanjarðarlestarstöðvum borgarinnar. Skólum hefur verið lokað víða og opinberum starfsmönnum heimilað að vinna heiman frá sér.

Þá var einhverjum vélum beint frá alþjóðaflugvellinum í Dubai.

Spáð er áframhaldandi úrkomu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×