Körfubolti

Bað Caitlin Clark af­sökunar á karl­rembunni í sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark sendi hjarta til fjölskyldu sinnar eftir einn leikinn hjá Iowa skólanum.
Caitlin Clark sendi hjarta til fjölskyldu sinnar eftir einn leikinn hjá Iowa skólanum. Getty/David K Purdy

Blaðamaður í nýrri heimaborg körfuboltastjörnunnar Caitlin Clark hefur beðist afsökunar á hátterni sínu og segir hegðun sína á fyrsta blaðamannafundi körfuboltakonunnar hafa verið heimskulega.

Clark var valin fyrst í nýliðavalinu af liði Indiana Fever. Hún er einn vinsælasti íþróttamaður Bandaríkjanna í dag og hefur gjörbylt áhuga á kvennakörfubolta í Bandaríkjunum.

Nú er komið að því að færa sig úr háskólaboltanum yfir í WNBA atvinnumannadeildina. Á fyrsta blaðamannafundi hennar sem leikmaður Indiana Fever fékk hún mjög furðuleg skilaboð frá Gregg Doyel, blaðamanni Indianapolis Stars blaðsins.

Blaðamaðurinn bjó til hjarta úr höndum sínum á fundinum en það er eitthvað sem Clark er vön að gera í átt að fjölskyldu sinni á leikjum.

„Ertu hrifinn af þessu,“ spurði Clark á móti.

„Ég er hrifinn af því að þú sért komin hingað,“ sagði Gregg Doyel.

„Ég geri þetta fyrir fjölskyldu mína eftir hvern leik,“ sagði Clark

„Byrjaðu á því að sýna mér hjarta og okkar samskipti verða ávalt góð,“ sagði Gregg Doyel.

Clark varð skiljanlega vandræðaleg og undrandi á þessum orðum blaðamannsins.

Doyel fékk skiljanlega líka mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum og var kallaður bæði karlremba og öfuguggi meira að segja stundum bæði í einu. Kollegar hans í hinum fjölmiðlum landsins voru einnig harðorðir.

Gregg Doyel baðst afsökunar á samfélagmiðlinum X.

„Í dag bauð ég Caitlin Clark velkomna til Indy með mínum einstaka og heimskulega hætti eða með því að mynda hjarta með höndunum mínum. Orð mín á eftir voru klúðursleg og óviðeigandi. Ég biðst innilega afsökunar á þeim,“ skrifaði Doyel. Hann lofaði líka að bæta ráð sitt og gera betur í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×