Upp­gjör og við­töl: Valur - Njarð­vík 67-82 | Ís­lands­meistararnir í sumar­frí

Dagur Lárusson skrifar
Isabella Ósk Sigurðardóttir og stöllur eru komnar í undanúrslit.
Isabella Ósk Sigurðardóttir og stöllur eru komnar í undanúrslit. Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík er komið í undanúrslit Subway-deildar kvenna í körfubolta eftir þægilegan sigur á Val á Hlíðarenda. Tapið þýðir að Íslandsmeistarar Vals eru komnir í sumarfrí.

Valur vann leik liðanna fyrir viku og jafnaði þá metin í einvíginu en Njarðvík kjöldró síðan Valsliðið í síðasta leik og gat því komist í undanúrslit með sigri í kvöld. Leikurinn var virkilega jafn í fyrsta og öðrum leikhluta en þó eftir því sem leið á fór lið Njarðvíkur að mynda stærra og stærra forskot og þegar komið var að hálfleik var staðan 32-44.

Valskonur mættu dýrvitlausar til leiks í þriðja leikhluta og skoruðu fyrstu sex stigin sem gerði það að verkum að Rúnar, þjálfari Njarðvíkur, greip strax í taumana og tók leikhlé. Sú ákvörðun hans átti eftir að reynast mjög góð þar sem eftir það leikhlé var orkan allt önnur í Valsliðinu og forysta Njarðvíkur fór því aftur að stækka.

Valskonur reyndu allt hvað þær gátu að minnka muninn en það gekk illa hjá þeim að stöðva körfur gestanna og að lokum vann Njarðvík þægilegan sigur, 67-82.

Atvik leiksins

Atvik leiksins var án efa í byrjun þriðja leikhluta þegar það var komin mikil stemning í Valsliðið og forysta gestanna minnkaði og minnkaði. Þá var Rúnar, þjálfari Njarðvíkur, mjög fljótur að bregðast við og tók leikhlé og það leikhlé, hvort sem það voru breytingar sem hann gerði eða einfaldlega pásan á leiknum sjálf, tók orkuna úr Valsliðinu og Njarðvík tók aftur yfirhöndina.

Stjörnur og skúrkar

Þær Selena og Jana voru öflugastar hjá Njarðvík. Á mikilvægu augnabliki í leiknum náði Jana til dæmis að taka mikla pressu af Njarðvíkur liðinu með því að setja niður tvö þriggja stiga skot í röð. Hvað skúrka varðar var enginn einn skúrkur, en Valsliðið var auðvitað ekki að hitta nægilega vel í kvöld.

Dómararnir

Það fór heldur lítið fyrir þeim sem er alltaf gott merki. Þeir stóðu sig vel.

Stemningin og umgjörð

Valsliðið hefði eflaust viljað fá aðeins fleiri í húsið þar sem það var að duga eða drepast í kvöld. En þeir stuðningsmenn sem mættu, hjá báðum liðum, létu vel í sér heyra sem er frábært.

Minnti þær á að við værum betra körfuboltalið

Rúnar Ingi fer yfir málinVísir/Anton Brink

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var að vonum ánægður með sigur síns liðs gegn Val í kvöld en sá sigur þýðir að liðið er komið í undanúrslit.

,,Við gerðum virkilega vel í öðrum leikhluta. Ég veit að við vorum tveimur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta en ég var alls ekki ánægður með hann. En í öðrum leikhluta sýndum við okkar réttu hliðar. Hvernig við svöruðum eftir fyrsta leikhluta var eitthvað sem ég var mjög ánægður með," byrjaði Rúnar að segja.

,,Seinni hálfleikur var ekkert fallegur og ég var ekkert gargandi ánægður allan tímann en við gerðum nóg. Þær láta finna fyrir sér og loka teignum vel og þegar þær sjá á tímabili að við erum að fjara út þá setja þær meiri kraft í sinn leik sem virkaði um stund," hélt Rúnar áfram að segja.

Rúnar var spurður frekar út í þann kafla í leiknum.

,,Ég tók þetta leikhlé en ég gerði ekki neinar breytingar. Þetta er auðvitað bara áhlaup hjá þeim. Þær koma út í seinni hálfleikinn og vilja keyra vel fyrstu fimm mínúturnar og minnka muninn og viljum gera einmitt öfugt. Ég gerði engar breytingar en ég minnti þær einfaldlega á það að við vörum betra körfuboltaliðið, þetta væri ekkert stress og við þyrftum að sýna okkar styrkleika," endaði Rúnar Ingi að segja eftir leik

Þær eru stærri og sterkari

Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Vals.Vísir/Vilhelm

Valur er úr leik í Subway-deild kvenna í körfubolta eftir tap gegn Njarðvík í kvöld en Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari liðsins, mætti í viðtal eftir leik og fór yfir leikinn og tímabilið.

,,Ég meina við lögðum okkur fram og það var orka allan tímann en þær tóku helling af sóknarfráköstum og þær eru einfaldlega stærri og sterkari heldur en við," byrjaði Hjalti að segja.

Hjalti talaði aðeins um besta kafla Valsliðsins í leiknum sem var í byrjun þriðja leikhluta.

,,Það var bara orka í liðinu þá, það var númer eitt, tvö og þrjú. Orka sem kom bæði frá leikmönnum á vellinum og á bekknum og síðan frá stuðningsmönnum í stúkunni.

Hjalti fór yfir tímabilið, nú þegar það er á enda fyrir hans lið.

,,Tímabilið er auðvitað vonbrigði, það verður að viðurkennast. En miðað við allt sem hefur gengið á hjá okkur þá er ég mjög stoltur af þessu liði. Að ná að koma þannig út úr þessu að vinna þessa B-deild og fá Njarðvík og vinna þær einu sinni og án Teu. Við erum með einn útlending á meðan þær eru með fjóra. Þetta er búið að vera rosalega þungt en ég er stoltur af þessu liði," endaði Hjalti Þór að segja eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira