Körfubolti

„Fínt að enda þetta þannig að fólk fái eitt­hvað fyrir peninginn“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Þór var stoltur af sínum mönnum eftir leikinn í kvöld.
Jóhann Þór var stoltur af sínum mönnum eftir leikinn í kvöld. Vísir/Vilhelm

„Ég er bara mjög ánægður að við séum komnir í gegn. Þetta er í fyrsta skipti síðan 2017 sem við förum í gegnum fyrstu umferðina,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir að hans menn sópuðu Íslandsmeisturum Tindastóls úr leik í 8-liða úrslitum Subway-deildarinnar.

Grindavík er komið í undanúrslit Subway-deildar karla eftir 91-89 sigur í æsispennandi leik gegn Tindastóli í kvöld. Jóhann Þór Ólafsson sagði að þetta hafi verið fyrsta markmiðið sem liðið setti sér í vetur.

„Til að byrja með var þetta opinbert markmið. Ég er bara ánægður því við byrjuðum mjög illa. Við náðum aldrei takti og Stólarnir gera vel, hitta vel. Við erum í einhverri þarmaflóru en náðum að stilla þetta af fyrir hálfleik,“ bætti Jóhann Þór við en Tindastóll náði mest 19 stiga forskoti í fyrsta leikhlutanum en Grindvíkingar voru búnir að ná muninum nður í eitt stig fyrir hálfleik.

„Við gerðum ekki nægilega vel í að sækja á körfuna, vorum að sætta okkur alltof mikið við þriggja stiga skot. Þegar við fórum að sækja á hringinn þá komst þetta í jafnvægi en ég er helst óánægður með hvað við vorum lengi að kveikja í okkur. Sigur, það er bara geggjað.“

Jóhann vill þó ekki meina að lið Tindastóls hafi sjokkerað Grindvíkinga með góðri byrjun.

„Nei nei, við vorum bara flatir. Bæði lið geta byrjað svona en þeir hittu bara. Við fáum okkur tólf stig í öðru leikhluta og komum til baka. Ég er bara hrikalega stoltur og þetta er það sem fólk bjóst við,, að þetta yrði tæpt. Fínt að enda þetta þannig þannig að fólk fái eitthvað fyrir peninginn.“

Undir lokin skiptust liðin á að skora körfur en það var svo Dedrick Basile sem var maðurinn sem sigldi sigrinum í höfn fyrir Grindavík. Síðustu sex stig Grindvíkinga komu öll eftir að hann keyrði á körfuna og annað hvort bjó til stig fyrir félaga sína eða skoraði sjálfur.

„Við fórum bara í það að sækja á hringinn. Hann gerði bara mjög vel,“ sagði pollrólegur Jóhann Þór Ólafsson að lokum en Grindavík er fyrsta liðið sem tryggir sér sæti í undanúrslitum og óljóst hverjir andstæðingar þeirra verða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×