Erlent

Maðurinn sem kveikti í sjálfum sér látinn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Lögregluþjónn beitir slökkvitæki á vettvangi.
Lögregluþjónn beitir slökkvitæki á vettvangi. EPA

Maður sem kveikti í sjálfum sér fyrir utan dómshús í New York-borg í gær er látinn. Í réttarsal dómshússins hefur verið réttað yfir Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, síðustu daga.

Washington Post greinir frá þessu, og segja að nafn mannsins hafi verið Maxwell Azzarello. Hann var 37 ára karlmaður frá borginni St. Augustine í New York.

Azzarello hafði fullyrt á netinu að hann myndi kveikja í sjálfum sér áður en hann lét verða að því í gær, föstudag. Hann hafði birt 2600 orða færslu á Substack þar sem hann sagði íkveikjuna vera mótmæli við „margra billjón dollara Ponzi-svindls“ hinna ríku til að splundra heimsefnahaginum.

Tarik Sheppard, aðstoðarlögreglustjóri, útskýrði í gær að maðurinn virtist vera samsæriskenningasmiður og að hann beindi sjónum sínum ekki að Trump sérstaklega, eða neinum aðila réttarhaldanna.

Greint var frá því í gær að fjöldi fjölmiðla, sem voru að fjalla um réttarhöldin hafi náð atvikinu á upptöku.

ABC fjallar um það í dag að stórar amerískar sjónvarpsstöðvar líkt og CNN, Fox News, og MSNBC hafi þurft að ákveða hvort að þau ætli að sýna myndefni sitt af atvikinu.

Að sögn ABC var CNN með besta sjónarhornið, og var það sýnt að einhverju leiti í beinni útsendingu á meðan fréttaþulur á vettvangi útskýrði hvað bar fyrir augum. Fimm mínútum eftir að Azzarello kveikti í sér var kominn borði á stöð CNN þar sem áhorfendur voru varaðir við grafísku myndefni.

Fox brást við á annan hátt. „Við biðjumst velvirðingar á þessu,“ sagði fréttamaður þeirra eftir að íkveikjan sást í skamma stund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×