Erlent

Varnar­mál efst á baugi nýs for­manns

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mona Juul er nýkjörinn formaður danska íhaldsflokksins.
Mona Juul er nýkjörinn formaður danska íhaldsflokksins. De Konservative Folkeparti

Mona Juul er nýr formaður danska íhaldsflokksins eftir kosningar á landsþingi flokksins sem haldinn var í dag. Á þrennu bar í fyrstu ræðu hennar sem formaður: varnarmálum, fjölskyldumálum og loftslagsmálum.

Hún tekur við af Søren Pape Poulsen sem lést eftir að hann hlaut skyndilega blæðingu inn á heilann á floksstjórnarfundi í Vejen í síðasta mánuði. Hann var aðeins 52 ára að aldri.

Hún segir nauðsynlegt að fylgja í fótspor Norðmanna sem hækkuðu nýlega útgjöld til varnarmála í þrjú prósent landsframleiðslu. Mona lýsti ástandinu í Evrópu í dag sem „fyrirstríðstímabili“ og vísaði til varnarmálaráðherra Þýskalands sem sagði að Rússland gæti gert árás á þjóðir Atlantshafsbandalagsins innan fimm til átta ár.

„Þess vegna þurfum við einfaldlega nýja og alvarlegri nálgun á dönsk varnarmál,“ sagði Mona í ræðu sinni.

Í samtali við DR segir hún þó flokkinn ekki gera kröfu um að þrjú prósent landsframleiðslu fari í málaflokkinn.

„Ef það sýnir sig að það er þörf á frekari fjárveitingum þá erum við tilbúin að bæta við útgjöldin. Við skulum bara segja að við erum fús til þess, okkur langar til þess. Því það er ekkert mikilvægara en varnir Danmerkur,“ segir Mona.

Hún segir það ekki liggja fyrir hvaðan þessir milljarðar ætlaðir varnarmálum eigi eftir að koma.

„Við komumst að því ef það reynist nauðsynlegt. Forgangsröðunin er sú að fyrst afgreiðum við nákvæmlega það sem þörf er á, því sem íhaldskona er markmiðið auðvitað ekki að sóa frekara fé en þarf,“ segir hún í viðtali við Berlingske.

Stórum hluta ræðu Monu var varið í að kalla eftir því sem hún kallar „fullorðnara samfélagi.“

„Við vitum til dæmis að í fullorðnu samfélagi kemur það hreinlega ekki fyrir að peninga vanti í varnarmálaráðuneytið. Það kemur ekki fyrir að hermennina okkar skorti efni,“ segir hún.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×