Enski boltinn

Rashford: Nú er nóg komið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta hefur verið mjög erfitt tímabil fyrir Marcus Rashford.
Þetta hefur verið mjög erfitt tímabil fyrir Marcus Rashford. Getty/Simon Stacpoole

Marcus Rashford, framherji Manchester United, er algjörlega búinn að fá sig fullsaddan af meðferðinni sem hann fær á samfélagsmiðlum.

Rashford svaraði færslu um sig á samskiptamiðlinum X, áður Twitter, þar sem var reyndar verið að lýsa yfir stuðningi við strákinn.

„Eineltið hefur staðið yfir í marga mánuði. Nú er nóg komið,“ skrifaði Rashford í athugasemdum við færsluna.

Sá sem skrifaði þessa fyrrnefnda færslu fann til með Rashford vegna þess sem hann hefur þurft að þola hvað varðar neikvætt áreiti á samfélagsmiðlum. Viðkomandi kallaði það ógeðslegt og illkvittnislegt.

Rashford hefur verið fastagestur í ensku slúðurblöðunum sem gera mikið úr öllum mistökum hans utan vallar eins og frægri ferð hans til Norður-Írlands þar sem hann fór að skemmta sér nokkrum dögum fyrir leik og skrópaði síðan á æfingu.

Rashford hafði áður verið hafinn til skýjanna fyrir það sem hann gerði vel innan sem utan vallar. Auk þess að raða inn mörkum inn á vellinum þá hefur hann verið verðlaunaður fyrir baráttu sína fyrir því að viðhalda matargjöfum til krakka í skólum á Manchester svæðinu.

Hinn 26 ára gamli framherji skoraði þrjátíu mörk fyrir United liðið á síðustu leiktíð en lítið hefur gengið hjá honum á þessu tímabili.

Rashford hefur aðeins náð að skora 8 mörk í 40 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×