Enski boltinn

Stólpa­grín gert að Terry vegna stjörnustæla hans

Valur Páll Eiríksson skrifar
John Terry var frábær varnarmaður en hann er sannarlega ekki allra.
John Terry var frábær varnarmaður en hann er sannarlega ekki allra. Getty

Chelsea goðsögnin John Terry sat fyrir svörum í veigamiklu viðtali á dögunum og hefur ein saga hans vakið sérstaka athygli. Töluvert hefur verið grínast með hann á samfélagsmiðlum vegna málsins.

Terry er á meðal betri varnarmanna sem hafa leikið í ensku úrvalsdeildinni. Hann spilaði tæplega 500 leiki fyrir Chelsea og vann ensku deildina fimm sinnum með félaginu.

Fyrsta titilinn vann hann undir stjórn José Mourinho árið 2005 og þann síðasta með Antonio Conte í brúnni 2017. Þar á milli tóku allskyns menn við stjórnartaumunum hjá Lundúnaliðinu og gekk misvel að fóta sig.

Á meðal þeirra sem fundu sig ekki var Portúgalinn André Villas-Boas, sem starfaði lengi vel undir stjórn Mourinho hjá Chelsea áður en hann varð sjálfur knattspyrnustjóri.

Í hlaðvarpsviðtali við Simon Jordan greinir Terry frá því að Villas-Boas hafi misstigið sig strax á fyrsta degi og lent upp á kant við stjörnur liðsins þegar Chelsea var á leið í keppnisferð til austurlanda fjær.

„Þegar hann mætti vorum við á leið til Hong Kong og ég sat í almennu farrými, á leið í 13 klukkustunda flug. Josh McEachran, Nathaniel Chalobah og fleiri ungir leikmenn sátu í fyrsta farrými. Þetta var leið Villas-Boas til að sýna að enginn leikmaður væri stærri en hann og allir sætu við sama borð,“

„Ég lét í mér heyra í flugvélinni og sagði að við færum hvergi fyrr en ungu strákarnir yrðu færðir aftur og aðalliðsleikmennirnir sem hafa byggt þetta félag að því sem það er fara fremst,“ segir Terry.

Orðaskipti urðu þá villi Terry og Villas-Boas en á endanum varð Terry að ósk sinni.

„Hann reyndi að senda skilaboð á fyrsta degi og mistókst strax. Ég get alveg sagt þér það að flugvélin hefði hvergi farið og ef hún hefði farið á þessum forsendum væri það án mín, Frank Lampard og Didier Drogba,“ segir Terry.

Netverjar hafa gripið þetta á lofti og gert grín að stælunum í Terry að vilja ekki sætta sig við að sitja í almennu sæti. Um sé að ræða stjörnustæla og yfirgang. Eitt dæmi um slíkt má sjá að neðan. Ummælin má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×