Enski boltinn

Salah eftir rifrildið við Klopp: „Ef ég tala mun allt loga“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína að undanförnu.
Mohamed Salah hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína að undanförnu. getty/Adam Davy

Grunnt virðist á því góða milli Mohameds Salah og Jürgens Klopp. Egyptinn var dularfullur í svörum eftir rifrildi þeirra í leiknum gegn West Ham United í dag.

Liverpool gerði 2-2 jafntefli við West Ham í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Rauði herinn var undir í hálfleik, kom til baka en Michail Antonio tryggði Hömrunum stig með marki á 77. mínútu. 

Salah kom inn á sem varamaður skömmu eftir mark Antonios. Meðan hann beið eftir því að komast inn á völlinn áttu þeir Klopp í einhverjum orðaskiptum.

Í viðtali eftir leikinn sagði Klopp að uppákoman hefði verið rædd og útkljáð í búningsklefa Liverpool.

Salah var einnig beðinn um að mæta í viðtal en baðst undan því. „Ef ég tala í dag mun allt loga,“ sagði Egyptinn.

Eftir úrslit dagsins eru vonir Liverpool á að verða Englandsmeistarar orðnar afar veikar. Liðið er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 75 stig, einu stigi á eftir Manchester City og tveimur stigum á eftir Arsenal. Liverpool hefur leikið einum leik meira en Arsenal og tveimur leikjum meira en City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×