Skoðun

Hvar er eld­hús­glugginn?

Elsa Ævarsdóttir skrifar

Áherslur á hönnun heimilisins eru í stöðugri þróun. Breytingarnar eru hraðar og erfitt að fylgjast með öllum nýjungum. Og kannski engin ástæða til. Tískan á hverjum tíma hefur engu að síður áhrif á hvernig við horfum á hlutina í kringum okkur. Eldhúseyjan er táknræn fyrir nútíðina; áhugann á góðum mat, matarboðum og fallegri hönnun. Við eyjuna má skála við gesti og reiða fram veislurétti. Þar á fjölskyldan sínar gæðastundir, börnin borða morgunmat á meðan fullorðnir útbúa nesti, foreldrar elda á meðan börnin sinna heimanáminu. Við eyjuna má halda fjarfundi og slaka á með kaffibolla. Nýir straumar segja okkur að mestu skipti að umgjörð heimilins stuðli að vellíðan og samveru.

Eyjur eru alltaf málið, heyrist sagt. Náttúrusteinn og tækjaskápar virðast lífsnauðsyn. Snúi eyjan í rétta átt má horfa út um glugga en sjaldan er fjallað um staðsetningu eldhússins og þátta á borð við loftun, birtu og hljóðvist eða þá staðreynd að ekki eru allir svo heppnir að hafa val um eyju. Sumsstaðar finnur fólk leiðir með því að brjóta niður veggi eða færir eldhúsið á milli herbergja en íbúðirnar eru fleiri þar sem aldrei verður hægt að búa til pláss fyrir eldhúseyju.

Vegleg eldhús og eyjur eru góð söluvara. Í nýjum fjölbýlishúsum er áherslan á eyjuna stundum slík að í alrýminu verður lítið pláss eftir fyrir borðstofu og stofu. Á sama tíma má segja að með tilkomu alrýmisins hafi þrengt verulega að eldhúsinu. Alltof oft stendur eldhúsinnréttingin innarlega í íbúðinni, langt frá glugga, eða liggur jafnvel meðfram gangvegi eins og um hótelíbúð væri að ræða. Formleg borðstofa heyrir sögunni til og sérstakur borðkrókur þykir óþarfur. Tilfærsla eldhússins úr sérstöku herbergi yfir í alrýmið fylgir þróun samfélagsins, í opna eldhúsinu geta allir í fjölskyldunni verið með og gestirnir líka. Það er óheppileg þróun að þessum mikilvæga samverureit sé æ oftar komið fyrir á dimmum stað, einnig í þéttri byggð. Hvað sem öllum tæknilausnum líður eru náttúruleg birta og ferskt loft grundvöllur vellíðunar.

Fátt er hversdagslegra en eldhúsglugginn en minningar sem tengjast honum hafa þó oft dýpri merkingu. Skrifað hefur verið á skáldlegan hátt og jafnvel haldnar sýningar um fagurfræði eldhúsgluggans. Gluggi framtíðarinnar verður í alrými nýju fjölbýlishúsanna. 

Í stað þess að horfa út snúa þar margir baki í birtuna við eldhússstörfin. Aðrir eru með eyju og útsýni. Hvort eyjan nái sama flugi og eldhúsglugginn í frásögnum framtíðarinnar er ekki gott að segja. En það má hugsa sér að það væri bjartara yfir minningunum ef eldhúsið, hjarta heimilisins, færðist aftur nær glugga. Eða, og það væri enn betra, að tryggt verði að eldhúsið fái aftur sína fermetra og taki sitt pláss í alrýminu, ekki á kostnað annarra þarfa heldur sem staður þar sem fólki getur raunverulega liðið vel.

Höfundur er innanhússarkitekt og talar máli Híbýlaauðs. Hópurinn býður til skrafs og ráðagerða í porti Hafnarhússins á Hönnunarmars 2024.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Kristín Huld Sigurðardóttir skrifar

Skoðun

Eygló Halldórsdóttir skrifar

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×