Innlent

Stutt í næsta gos komi til gosloka

Bjarki Sigurðsson og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Magnús Tumi Erlendsson jarðeðlisfræðingur.
Magnús Tumi Erlendsson jarðeðlisfræðingur. Vísir/Arnar

Enn mælist landris við Svartsengi þrátt fyrir að vísbendingar séu um að hægt hafi á því síðustu daga. Gögn benda til þess að þrýstingur sé að aukast í kvikuhólfinu undir Svartsengi. Jarðeðlisfræðingur segir bæði líkur á nýju gosi ofan í það sem er nú í gangi og goslokum, en í því tilfelli myndi líklegast brátt gjósa aftur. 

Tvær sviðsmyndir blasa nú fyrir okkur, annað hvort sú að nýtt gos byrji á svipuðum slóðum og gosið sem er í gangi nú þegar, eða þá að að kraftur í því gosi aukist. 

Bjarki ræddi við Magnús Tuma Erlendsson jarðeðlisfræðing í Kvöldfréttum. 

„Það sem við erum aðallega að sjá núna er að gosið er orðið mjög lítið. Það hefur dregið vel úr því,“ segir Magnús Tumi og segir gosið nú líkjast endalokum gossins í Litla-Hrúti, sem gekk yfir síðasta sumar. Það gæti því vel lognast út á næstunni.

„Önnur sviðsmynd er að þetta vaxi aftur, og fari kraftur í það því það er að safnast kvika þarna undir. Hin myndin er að þetta hætti en þá er sennilega mjög stutt í að það komi upp gos,“ segir Magnús Tumi og að það yrði þá svipað fyrri gosum á svæðinu.

Gæti farið að draga til tíðinda þarna á svæðinu?

„Það er spurning hvað við köllum að draga til tíðinda. Ef að gosið hættir þá eru það vissulega tíðindi. Og það virðist stefna í það. En þá er, eins og ég segi, dagar og í mesta lagi vikur í að það komi nýtt gos svipað þessu,“ segir Magnús Tumi. 

Hann segir ekki hægt að segja til um hvort núverandi gos gæti haldið áfram að malla lengur. „Þetta getur líka aukist aftur. Óróinn hefur ekkert minnkað, sem bendir til þess að það er eitthvað mall í gangi. En það er bara óvissa núna og við verðum bara að bíða og sjá.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×