Fótbolti

Katla tryggði Kristianstad sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katla Tryggvadóttir er að byrja vel í atvinnumennskunni.
Katla Tryggvadóttir er að byrja vel í atvinnumennskunni. Vísir/Hulda Margrét

Katla Tryggvadóttir var hetja Kristianstad í sænsku deildinni í dag þegar hún skoraði sigurmarkið í útileik á móti Piteå.

Katla skoraði markið sitt á 63. mínútu eða aðeins tveimur mínútum eftir að Tabby Tindell hafði jafnaði metin.

Piteå komst 1-0 yfir strax á tíu mínútu leiksins þegar Sara Eriksson skoraði en endurkoma Kristianstad hófst eftir klukkutíma leik.

Katla var í byrjunarliðinu ásamt Hlín Eiríksdóttur. Guðný Árnadóttir var ekki í leikmannahópnum.

Þetta var annað mark Kötlu í fyrstu fjórum deildarleikjum sínum á leiktíðinni en hún skoraði einnig í fyrsta leik sínum á móti AIK. Hún er á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.

Kristianstad er í sjöunda sæti með sex stig út úr fyrstu fjórum leikjunuum en liðið hafði tapað síðustu tveimur leikjum sínum.

Þrjár íslenskar stelpur voru í byrjunarliðinu þegar KIF Örebro tapaði 1-0 á heimavelli á móti Vittsjö GIK. Vittsjö skoraði sigurmarkið sitt í uppbótatíma. Markið skoraði Tanya Boychuk, fyrrum leikmaður Þróttar í Bestu deildinni.

Bergþóra Sól Ásmundsdóttir spilaði fyrstu 55 mínúturnar en Katla María Þórðardóttir og Áslaug Sigurbjörnsdóttir kláruðu allan leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×