Lífið

Búa til barna­efni á ís­lensku á Youtu­be

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Kristín Erla Tryggvadóttir og Auður Linda sjá um Youtube-rásina Frú Kristín.
Kristín Erla Tryggvadóttir og Auður Linda sjá um Youtube-rásina Frú Kristín. Vísir

Kristín Erla Tryggvadóttir, frú Kristín, og tónlistarkonan Auður Linda, ALINA, eru konurnar á bak við Youtube-rásina Frú Kristín, þar sem þær búa til barnaefni á íslensku. Rásin er hugsuð fyrir yngsta aldurshópinn, 0-3 ára. Kristín og Auður voru til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Kristín býr til myndböndin á rásinni og Auður sér um tónlistina. Kristín, sem kallar sig frú Kristín, segist vera apa eftir erlendu rásinni Ms Rachel. „Þetta er svolítið rip-off af Ms Rachel. Dóttir mín vildi svo mikið horfa á Ms Rachel þegar hún var yngri,“ segir Kristín. Hún segir að þær Rachel búi til svipað efni, sem eigi að vera fræðandi og hjálpi börnum að læra að tala og þar fram eftir götunum. Inn á milli komi svo teiknmyndir, lög og söngur. Þetta gengur út á að fræða börn um orð, hljóð, liti og tölur segir Kristín.

Kristín segir að dóttir hennar hafi verið svo rosalega hrifin af Ms Rachel frá þriggja mánaða aldri, að hún hafi ekki viljað sjá neitt annað. Kristín hafi þá hugsað „fyrst hún vill horfa á þetta, af hverju er þetta ekki til á íslensku?“

Auður segist ekki hafa verið vön því að búa til tónlist fyrir 0-3 ára börn. Þetta sé öðruvísi en samt gaman. Hún segist hafa búið til sínar eigin útgáfur af barnalögum sem mörg eru höfundaréttarvarin eða ekki til á íslensku.

Kristín og Auður segja að frú Kristín hafi slegið í gegn hjá börnum þeirra. Kristín segir að margar mæður séu mjög ánægðar með framtakið, en rásin hefur strax fengið nokkra athygli. Hér má finna rás þeirra og hlýða á nokkur myndbönd.

Kristín og Auður voru í Bítinu í morgun.


Tengdar fréttir

Sköpuðu valdeflandi sjónvarpsefni fyrir börn

„Hugmyndin kviknaði út frá sögustund með dóttur minni,“ segir Kristján Hafþórsson um nýja barnaefnið Hvítatá. Hann átti sjálfur hugmyndina að sögunni og skrifaði handritið.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×