Erlent

Banda­ríkja­menn stöðvuðu vopna­sendingu til Ísrael í síðustu viku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmæli eru nú daglegt brauð í Tel Aviv og Jerúsalem, þar sem fólk kallar eftir lausn gíslanna í haldi Hamas og afsögn Benjamin Netanyahu forsætisráðherra.
Mótmæli eru nú daglegt brauð í Tel Aviv og Jerúsalem, þar sem fólk kallar eftir lausn gíslanna í haldi Hamas og afsögn Benjamin Netanyahu forsætisráðherra. AP/Oded Balilty

Joe Biden Bandaríkjaforseti stöðvaði vopnasendingu til Ísraelsmanna í síðustu viku til að koma í veg fyrir að innihaldið, um 3.500 sprengjur, yrðu notaðar á Rafah.

Samkvæmt New York Times er nú til skoðunar að stöðva fleiri sendingar, meðal annars stýribúnað til að breyta svokölluðum „heimskum sprengjum“, sem erfitt er að miða, í hnitmiðaðri vopn. 

Um er að ræða fyrsta skiptið sem Biden heldur vopnum frá Ísraelsmönnum til að setja þrýsting á þá en Biden hefur verið mjög skýr með það að hann styðji ekki áhlaup Ísraelshers á Rafah.

Ísraelskir embættismenn greindu frá ákvörðun Bandaríkjamanna í síðustu viku en fregnirnar fengust ekki staðfestar vestanhafs fyrr en í gær, eftir að fréttist að Ísraelsmenn hefðu sent skriðdreka inn í Rafah.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru sögð vera að missa þolinmæðina gagnvart Ísraelsmönnum, sem virðast alfarið ætla að hunsa viðvaranir þeirra og annarra um að áhlaup gæti haft í för með sér gríðarlegt mannfall.

Upphaflega tók Biden þá afstöðu að Ísraelar ættu ekki að ráðast inn fyrr en þeir hefðu lagt fram sannfærandi áætlun um hvernig þeir ætluðu að gera það án þess að það leiddi til hörmunga fyrir þá sem hafast við í borginni en nú eru Bandaríkjamenn sagðisr efast um að það sé yfir höfuð mögulegt.

Enn er óvíst hvort Ísraelsmenn munu gera árás á Rafah á næstu dögum, í kjölfar þeirra „afmörkuðu aðgerða“ sem nú virðast standa yfir. 

Þeir segja landamærastöðvarnar sem lokað var í gær eða fyrradag, í Kerem Shalom og við Egyptaland, hafa verið opnaðar á ný.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×