Erlent

Hrina á­rása á þýska stjórn­­mála­­menn veldur á­hyggjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Franziska Giffey, fulltrúi Jafnaðarmannaflokksins í Berlín, varð nýjasta fórnarlamb árása á stjórnmálamenn í gær.
Franziska Giffey, fulltrúi Jafnaðarmannaflokksins í Berlín, varð nýjasta fórnarlamb árása á stjórnmálamenn í gær. AP/Markus Schreiber

Ráðist var á hátt settan félaga í stjórnarflokki Olafs Scholz, kanslara Þýskalands, í Berlín í gær. Aðeins nokkrir dagar eru frá því að annar flokksmaður þurfti að gangast undir aðgerð eftir að menn réðust á hann með spörkum og barsmíðum. Hrina árása á stjórnmálamenn hefur verið tengd við uppgang öfgahægrihyggju.

Karlmaður sló Franzisku Giffey, fulltrúa Jafnaðarmannaflokksins í borgar- og sambandslandsstjórn Berlínar, aftan á höfuðið með poka sem í var þungur hlutur á bókasafni í borginni í gær, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Giffey særðist lítillega og hlaut aðhlynningu vegna höfuðverks á sjúkrahúsi.

Sama dag varð félagi í Græningjum, samstarfsflokki jafnaðarmanna í ríkisstjórn, fyrir aðkasti þegar hann hengdi upp kosningaauglýsingar í Dresden. Tveir menn hrintu honum, hræktu á hann og rifu niður kosningaspjöld. Vitni heyrðu mennina hylla nasistaforingjann Adolf Hitler áður en þeir létu til skarar skríða.

Alvarlegasta árásin var þó á Matthias Ecke, Evrópuþingmann jafnaðarmanna, í Dresden á föstudag. Hann var barinn svo illa þegar hann var að hengja upp kosningaspjöld að hann þurfti að gangast undir skurðaðgerð vegna sára sinna.

Tengja árásir við uppgang hægriöfga

Árásum á þýska stjórnmálamenn hefur snarfjölgað á skömmum tíma. Samkvæmt opinberum tölum eru þær nú tvöfalt fleiri en árið 2019 þegar Evrópuþingskosningar fóru fram. Árásum á kjörna fulltrúa fjölgaði um ríflega helming á milli 2022 og 2023.

Innanríkisráðherrar Þýskalands og sambandslandanna sextán héldu neyðarfund vegna árásanna í gær. Þeir kölluðu eftir aukinni lögregluvernd og harðari lögum til þess að koma í veg fyrir frekari árásir á stjórnmálamenn og starfsmenn framboða, að sögn Deutsche Welle.

Ýmsir stjórnmálamenn hafa kennt uppgangi hægriöfgaflokksins Valkosts fyrir Þýskaland (AfD) um vaxandi pólitískt ofbeldi. Stuðningur við flokkinn hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum og hann sér mögulega fram á sigur í þremur sambandslöndum í kosningunum nú.

Lögreglan í Saxlandi sem rannsakar árásina á Ecke segir að minnsta kosti eitt ungmennanna fjögurra sem réðust á hann tilheyri öfgahægrihreyfingunni. Sami hópur hafi ráðist á og sært sjálfboðaliða Græningja.

„Þessar endurteknu árási eru til marks um þróun í samfélaginu þar sem fólk reynir ekki að ná pólitískum markmiðum sínum með orðum heldur með ofbeldi, hatri og áreitni,“ sagði Michael Stübgen, innanríkisráðherra Brandenborgar, sem stýrði ráðherrafundinum í gær.

Alice Weidel, næstráðandi AfD, fordæmdi það sem hún kallaði tilraunir til þess að nota árásina á Ecke í pólitískum tilgangi og benti á að kjörnir fulltrúar og félagar í flokknum yrðu einnig fyrir tíðum árásum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×