Innlent

Guð­mundur í Af­stöðu hundskammar DV

Jakob Bjarnar skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu beinir spjótum sínum að DV og segir mikilvægt að blaðamenn vandi skrif sín um eins viðkvæm mál og hér eru undir.
Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu beinir spjótum sínum að DV og segir mikilvægt að blaðamenn vandi skrif sín um eins viðkvæm mál og hér eru undir. Vísir/Vilhelm

Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu hafnar því alfarið að reiði fanga beinist sérstaklega gegn fangavörðum.

Ekki er annað að skilja á frétt DV frá í gær en að fangar séu reiðir fangavörðum og það sem meira er, látið er að liggja að Guðmundur Ingi sé helsti heimildarmaður miðilsins fyrir því.

„Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir vegna fréttar á vef DV þar sem fjallað var um reiði fanga í garð fangavarða í kjölfar andláts á Litla-Hrauni. Sú staðhæfing kemur hvorki frá mér né Afstöðu og af heimsókn minni á Litla-Hraun í gær að ráða er þetta gjörsamlega úr [lausu] lofti gripið. Vissulega gætir reiði á meðal fanga en hún beinist sannarlega ekki að fangavörðum,“ segir Guðmundur Ingi í Facebook-færslu um málið.

Í DV er fjallað um að reiði sé mikil meðal fanga vegna andláts fangans Ingva Hrafns Tómassonar á Litla Hrauni um helgina. Og að sögn miðilsins beinist sú reiði að fangavörðum. Það er bull að sögn Guðmundar.

„Aftur á móti var áþreifanleg sorg á Litla-Hrauni á meðal vistmanna og starfsmanna og syrgja fangaverðir með föngum.“

Guðmundur Ingi vill brýna fyrir blaðamönnum að þeir sýni nærgætni þegar kemur að umfjöllun sem fjallar um jafn viðkvæm mál og þessi og að þeir vandi sig við fréttaskrif af þessum toga.


Tengdar fréttir

Faðir mannsins sem lést á Litla-Hrauni krefst umbóta

Tómas Ingvason, faðir manns sem fannst látinn í fangaklefa á Litla-Hrauni um liðna helgi, vill í minningu sona sinna bæta aðstæður og líf fólks með vímuefnavanda. Andlát sonarins sé enn eitt dæmið um hlúa þurfi betur að þessum jaðarsetta hópi. Sonurinn hafi verið ljósið í hans lífi og átt betra skilið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×