Innlent

Um fimm prósent fjöl­skyldu­sam­eininga vegna flótta­manna og hælis­leit­enda

Kjartan Kjartansson skrifar
Útlendingastofnun gefur út dvalarleyfi vegna sameiningar fjölskyldna.
Útlendingastofnun gefur út dvalarleyfi vegna sameiningar fjölskyldna. Vísir/Vilhelm

Fjöldi leyfa til fjölskyldusameiningar hefur meira en tvöfaldast síðasta rúma áratuginn. Langflest leyfin voru vegna aðstandenda Íslendinga. Rétt rúmlega fimm prósent leyfanna frá 2013 voru vegna flóttamanna og mannúðarleyfishafa.

Alls voru gefin út 21.544 dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameininga frá 2013 til og með 2023 samkvæmt tölum dómsmálaráðuneytisins. Þeim hefur fjölgað umtalsvert á tímabilinu. Þau voru innan við 1.500 á ári til 2017 en í fyrra voru þau 3.251 talsins.

Fjöldi leyfanna endurspeglar ekki fjölda einstaklinga sem hafa fengið leyfi þar sem tölurnar ná einnig yfir endurnýjun dvalarleyfa. Einnig ná tölurnar yfir leyfi sem Útlendingastofnun hefur fallist á að veita en ekki útgefin leyfi. Þannig eru talin með leyfi sem einstaklingar sem eru ekki komnir til landsins hafa fengið samkvæmt svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Tæplega sextíu prósent leyfanna sem Útlendingastofnun veitti undanfarin ellefu ár voru vegna aðstandenda Íslendinga, aðeins 12.500. Þar á eftir komu leyfi vegna aðstandenda atvinnuleyfishafa, um 16,2 prósent.

Um tvöfalt fleiri leyfi vegna flóttamanna í fyrra en árið áður

Fjölskyldusameiningar hælisleitenda og fólks sem nýtur alþjóðlegrar verndar eru hlutfallslega fáar á tímabilinu. Alls var 951 leyfi veitt vegna aðstandenda flóttamanna á þessum ellefu árum og 141 vegna aðstandenda mannúðarleyfishafa, flóttafólks frá Úkraínu og þeirra sem hafa fengið alþjóðlega vernd. Samtals voru þau fimm prósent af veittum leyfum á tímabilinu.

Leyfum vegna aðstandenda flóttamanna fjölgaði þó verulega í fyrra. Þá voru 419 leyfi veitt á grundvelli fjölskyldusameiningar, meira en tvöfalt fleiri en árið áður. Í fyrra voru fjölskyldusameiningarleyfi vegna flóttamanna og mannúðarleyfishafa samtals um þrettán og hálft prósent af öllum veittum leyfum.

Af einstökum þjóðernum voru flest leyfi vegna fjölskyldusameiningar veitt Filippseyingum á tímabilinu, alls 2.690. Þar á eftir komu Víetnamar, 2.513, og Bandaríkjamenn, 2.2122. Þá voru 1.829 leyfi veitt vegna Taílendinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×