Enski boltinn

Fernandes í­hugar að stökkva frá borði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Er Bruno Fernandes kominn með nóg af ástandinu hjá Manchester United?
Er Bruno Fernandes kominn með nóg af ástandinu hjá Manchester United? getty/James Gill

Vont gæti versnað enn frekar hjá Manchester United en breskir fjölmiðlar greina frá því að fyrirliði liðsins, Bruno Fernandes, hugsi sér til hreyfings.

Fernandes hefur verið besti leikmaður United síðan hann kom til liðsins frá Sporting 2020 og var gerður að fyrirliða liðsins fyrir þetta tímabil.

United mætir Manchester City í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar 25. maí og breskir fjölmiðlar segja að það gæti orðið síðasti leikur Fernandes fyrir Rauðu djöflana.

Félög í Sádi-Arabíu ku hafa áhuga á hinum þrítuga Fernandes, meðal annars Al-Nassr sem Cristiano Ronaldo, samherji hans í portúgalska landsliðinu, leikur með.

Fernandes hefur leikið 45 leiki í öllum keppnum í vetur, skorað fimmtán mörk og lagt upp ellefu. Hann er samningsbundinn United til 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×