Íslenski boltinn

„Ef KR-ingar vita að Óskar sé til í að koma, skiptir ein­hverju máli hvað Gregg gerir?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gregg Ryder var ráðinn þjálfari KR eftir síðasta tímabil.
Gregg Ryder var ráðinn þjálfari KR eftir síðasta tímabil. vísir/anton

Sérfræðingar Stúkunnar segja að Gregg Ryder, þjálfari KR, sé í erfiðri stöðu, sérstaklega í ljósi þess að Óskar Hrafn Þorvaldsson sé á lausu.

KR tapaði fyrir HK, 1-2, í Bestu deildinni á sunnudaginn en þetta var fjórði deildarleikur liðsins í röð án sigurs.

Á föstudaginn bárust fréttir af því að Óskar Hrafn væri hættur sem þjálfari Haugasunds í Noregi. KR-inga dreymdi um að fá hann til að taka við liðinu síðasta haust og undanfarna daga hefur verið rætt um hvort þeir reyni aftur að fá hann núna.

Staða Ryders í ljósi tíðinda föstudagsins og gengis KR að undanförnu var til umræðu í Stúkunni í gær. Kjartan Atli Kjartansson byrjaði á að spyrja Lárus Orra Sigurðsson hvort þetta allt saman hefði áhrif á Ryder.  

„Það ætti ekki að gera það. Ég veit ekki hvort það gerir það eða ekki. En hann hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því - hann talar um að aðalpressan sé hjá KR og það er örugglega rétt hjá honum - að það voru margir sem undruðu sig á þessari ráðningu og það var alveg vitað að um leið og eitthvað færi að bjáta á yrði horft á hann. Hann hlýtur að hafa vitað það, farandi inn í þetta starf, og nú er hann kominn inn í eldhúsið og það er orðið svolítið heitt. Hann verður bara að sýna úr hverju hann er gerður,“ sagði Lárus Orri.

„Hann veit það alveg, Óskar var númer eitt í röðinni og Gregg var ekki einu sinni númer tvö eða þrjú,“ skaut Albert Brynjar Ingason inn í.

„Hann gerir vel að ná í þetta starf. Þetta er stórt og mikið starf. Hann kom sér í þennan stól og sviðið er hans, að sýna hvað hann getur sem þjálfari.“

Klippa: Stúkan - umræða um KR

Albert telur að starfið hjá KR sé Óskars Hrafns ef hann er klár að taka við uppeldisfélaginu.

„Ef KR-ingar vita að Óskar sé laus og til í að koma, skiptir einhverju máli hvað Gregg gerir? Snýst þetta eitthvað um að bíða og sjá hvað Gregg gerir? Er þetta ekki meira spurning hvort Óskar sé tilbúinn að koma eða ekki,“ sagði Albert.

„Ég held að þetta fari bara eftir því hvort Óskar sé tilbúinn að koma eða ekki,“ bætti hann við.

Umræða má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×