Íslenski boltinn

Bikar­meistarar Víkings í næstu um­ferð á­samt Kefla­vík og Fylki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Danijel Dejan Djuric var á skotskónum.
Danijel Dejan Djuric var á skotskónum. vísir/hulda margrét

Bikarmeistarar Víkings eru komnir áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikars karla í fótbolta. Sömu sögu er að segja af Keflavík og Fylki.

Víkingur mætti Grindavík í Safamýri og vann 4-1 sigur. Danijel Dejan Djuric skoraði fyrsta mark leiksins eftir hálftíma leik og staðan 1-0 Víkingum í vil þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Erlingur Agnarsson tvöfaldaði forystuna snemma í síðari hálfleik áður en Josip Krznaric minnkaði muninn á 65. mínútu. Valdimar Þór Ingimundarson skoraði þriðja mark Víkings þegar skammt var til loka venjulegs leiktíma og Viktor Örlygur Andrason bætti því fjórða við skömmu síðar.

Í Keflavík kom Hinrik Harðarson gestunum frá Akranesi yfir snemma leiks en Tobias Sandberg fékk rautt spjald á 36. mínútu fyrir brot innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Sami Kamel fór á punktinn og jafnaði metin fyrir Lengjudeildarliðið.

Kamel var svo aftur á ferðinni í blálok fyrri hálfleiks og staðan orðin 2-1 Keflavík í vil. Valur Þór Hákonarson skoraði svo þriðja mark Keflavíkur á 81. mínútu. Skömmu síðar fékk Frans Elvarsson beint rautt spjald í liði Keflavíkur og bæði lið kláruðu leikinn með tíu leikmenn. Lokatölur þó 3-1 og Keflvíkingar verða í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit.

Í Árbænum var HK í heimsókn. Eiður Gauti Sæbjörnsson kom HK yfir strax á 5. mínútu en Þórður Gunnar Hafþórsson svaraði fyrir heimamenn ekki löngu síðar. Hann var svo aftur á ferðinni tíu mínútum síðar og Benedikt Daríus Garðarsson gat því gert út um leikinn þegar Fylkir fékk vítaspyrnu á 26. mínútu.

Benedikt Daríus setti boltann hins vegar framhjá markinu en bætti upp fyrir það mínútu síðar þegar hann skoraði eftir góða sendingu inn fyrir vörn HK. Staðan 3-1 í hálfleik og reyndust það lokatölur.

Þá vann Stjarnan einnig KR í fjörugum leik sem var í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×