Innlent

Gríðar­leg fjölgun á dvalar­leyfum til Víet­nama á grund­velli sér­fræði­þekkingar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tölurnar vekja athygli í ljósi rannsóknar lögreglu á Quang Le, sem grunaður er um mansal.
Tölurnar vekja athygli í ljósi rannsóknar lögreglu á Quang Le, sem grunaður er um mansal. Vísir/Vilhelm

Árið 2023 fengu 115 Víetnamar dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli sérfræðiþekkingar. Um er að ræða umtalsverða fjölgun frá fyrri árum og langstærsta hópinn sem fékk dvalarleyfi á þessum forsendum.

Árið 2022 fékk 51 Víetnami dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar og 24 árið 2021. Indverjar eru næst stærsti hópurinn en 54 Indverjar fengu dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar árið 2023, 61 árið 2022 og 57 árið 2021.

Heildarfjöldi dvalarleyfa á grundvelli sérfræðiþekkingar var 358 árið 2023, 268 árið 2022 og 211 árið 2021. Aukninguna milli áranna 2022 og 2023 má að stærstum hluta rekja til aukins fjölda dvalarleyfa til handa Víetnömum.

Ofangreindar tölur er að finna í svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhanns Friðriks Friðrikssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um umsóknir um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar.

Tölurnar vekja athygli í ljósi rannsóknar lögreglu á hendur Quang Le, sem einnig er þekktur undir nafninu Davíð Viðarsson, en hann er grunaður um vinnumansal, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi í tengslum við ýmis konar rekstur.

Eftir að málið komst upp hafa einstaklingar frá Víetnam lýst því að hafa greitt Quang Le milljónir króna fyrir aðstoð við að fá dvalarleyfi á Íslandi á fölskum forsendum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu útvegaði Davíð fólki frá Víetnam dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérfræðiþekkingar og réði þá til starfa hjá fyrirtækjum í hans eigu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×