Upp­gjör: Njarð­vík - Kefla­vík 71-81 | Kefl­víkingar nálgast titilinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
440041855_10161315068749035_3518708224425513145_n
Vísir/Vilhelm

Keflavík er komið í lykilstöðu í úrslitaeinvígi liðsins gegn Njarðvík í Subway-deild kvenna. Liðið vann 81-71 sigur í Ljónagryfjunni í kvöld og er komið í 2-0 í einvígi liðanna. Þrjá sigra þarf til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrri hálfleikurinn var kaflaskiptur. Gestirnir úr Keflavík mættu mun ákveðnari til leiks og sóknarlega voru leikmenn Keflavíkur afar grimmir og keyrðu hratt á Njarðvík við hvert tækifæri.

Munurinn varð mestur tólf stig um miðjan annan leikhluta en þá settu Njarðvíkingar í næsta gír varnarlega. Hik kom á sókn Keflavíkur og Njarðvík tókst að minnka muninn jafnt og þétt. Þristur frá Jönu Falsdóttur kom muninum niður í eitt stig fyrir hlé, staðan þá 44-43 fyrir Keflavík.

Selena Lott byrjaði seinni hálfleikinn á því að koma Njarðvík yfir með góðu sniðskoti og víti sem hún fékk að auki. Keflavík svaraði hins vegar vel og var munurinn fljótlega kominn upp í átta stig. Baráttan í þriðja leikhluta var gríðarleg, bæði lið að gera mistök sóknarlega og leggja mikla orku í varnarleikinn.

Staðan fyrir fjórða leikhluta var 64-56 fyrir gestina og frumkvæðið þeirra. Njarðvík skoraði fyrstu fjögur stig fjórðungsins en líkt og áður þegar heimakonur nálguðust Keflavík þá gáfu gestirnir í á nýjan leik. Keflavík komst þrettán stigum yfir með þristi frá Söru Rún Hinriksdóttur þegar þrjár mínútur voru eftir og þá var björninn unninn.

Lokatölur í kvöld 81-71 og Keflavík getur því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn þegar liðin mætast í þriðja sinn á miðvikudagskvöld.

Atvik leiksins

Það var ekkert eitt atvik sem stóð upp úr í þessum leik. Við gætum talað um nítján sóknarfráköst Njarðvíkur sem nýttust ekki sem skyldi eða töpuðu boltana sautján.

Stjörnur og skúrkar

Sara Rún Hinriksdóttir var frábær í liði Keflavíkur. Hún byrjaði af miklum krafti og sóknarlega var það oft á tíðum hún sem tók af skarið þegar á þurfti að halda. Elisa Pinzan var sömuleiðis virkilega öflug, 18 stig, 5 fráköst, 7 stoðsendingar og 3 stolnir boltar hjálpuðu Keflvíkingum svo sannarlega í kvöld.

Njarðvík þarf meira frá Selena Lott ætli þær sér eitthvað annað en að vera sópað út úr þessu úrslitaeinvígi. Lott skoraði vissulega 15 stig og tók 11 fráköst en hún tapaði 5 boltum og hitti illa fyrir utan þriggja stiga línuna. Hún er stundum of fljót að verða pirruð og það hefur áhrif á hana á vellinum. 

Þá þarf Emelie Hesseldal að hitta betur. 7/17 nýting hjá leikmanni sem skýtur nánast bara skotum í kringum körfuna er ekki nógu gott.

Dómararnir

Bjarki Þór Davíðsson, Jakob Árni Ísleifsson og Jóhannes Páll Friðriksson dæmdu þennan leik vel. Njarðvíkingar voru aðeins ósáttir í fjórða leikhluta og Ísabella Ósk Sigurðardóttir fékk til dæmis dæmda á sig villu fyrir að verja skot Daniela Wallen löglega að því er virtist. 

Auðvitað koma atvik þar sem áhorfendur, þjálfarar eða leikmenn eru ósáttir en þríeykið átti heilt yfir nokkuð gott kvöld.

Stemmning og umgjörð

Það er eitthvað við það að vera á leik í Ljónagryfjunni, hvað þá leik í úrslitaeinvígi. Stemmningin var frábær og vitaskuld setið í hverju einasta sæti. 

Þó svo að einhver önnur hús komi kannski fleiri áhorfendum fyrir þá verður eftirsjá af Ljónagryfjunni þegar Njarðvíkurliðin færa sig yfir á nýjan heimavöll á næsta tímabili.

Viðtöl

„Mjög ánægð með mínar dömur í kvöld“

Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur  í kvöld. Sara Rún spilaði frábærlega þegar Keflavík kom sér í 2-0 stöðu í úrslitaeinvíginu gegn Njarðvík en liðið getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á miðvikudaginn þegar liðin mætast í þriðja sinn.

„Við áttum nokkur áhlaup og þær nokkur. Við enduðum á áhlaupi og ég er mjög ánægð með það. Við töluðum um þetta, að þær myndu ná áhlaupum og við svara. Ég er mjög ánægð með mínar dömur í dag,“ sagði Sara Rún í viðtali beint eftir leik.

Sara Rún Hinriksdóttir var frábær í leiknum í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Byrjun Keflavíkur í dag kom þeim á bragðið en þær voru afar sterkar sóknarlega í fyrsta leikhlutanum og byggðu upp sjálfstraust.

„Við erum búnar að tala um þetta fyrir síðustu leiki að byrja vel en það hefur ekki virkað, við erum ekki búnar að vera að byrja neina leiki vel. Það kom í dag loksins og nú er bara einn leikur í viðbót.“

Titilinn getur farið á loft á Sunnubrautinni á miðvikudag en Sara Rún býst við sterku Njarðvíkurliði þrátt fyrir að þær séu komnar með bakið uppvið vegginn fræga.

„Okkur líður vel en við vitum að Njarðvík koma brjálaðar. Þær eru með mjög gott lið og góðan þjálfara. Þær koma með einhver svör og við þurfum bara að svara á móti,“ sagði Sara Rún sátt að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira