Körfubolti

Dallas komið í úr­slit Vestursins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic var með þrefalda tvennu þegar Dallas Mavericks tryggði sér sæti í úrslitum Vesturdeildar NBA.
Luka Doncic var með þrefalda tvennu þegar Dallas Mavericks tryggði sér sæti í úrslitum Vesturdeildar NBA. getty/Sam Hodde

Dallas Mavericks er komið í úrslit Vesturdeildar NBA í annað sinn á þremur árum eftir sigur á Oklahoma City Thunder, 117-116, í nótt. Dallas vann einvígið, 4-2.

Dallas lenti sautján stigum undir í 3. leikhluta en kom til baka og lokakafli leiksins var gríðarlega spennandi.

Chet Holmgren kom OKC yfir, 115-116, þegar tuttugu sekúndur voru eftir. Dallas fór í sókn og Shai Gilgeous-Alexander braut á P.J. Washington í þriggja stiga skoti þegar tvær og hálf sekúnda voru eftir. 

Washington hitti úr fyrstu tveimur vítaskotunum en brenndi viljandi af því þriðja og OKC náði einungis neyðarskoti sem geigaði.

Luka Doncic var með þrefalda tvennu í liði Dallas, þriðja leikinn í röð. Slóveninn skoraði 29 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Derrick Jones og Kyrie Irving skoruðu 22 stig hvor og Dereck Lively kom með tólf stig og fimmtán fráköst af bekknum.

Gilgeous-Alexander skoraði 36 stig fyrir Oklahoma, Jalen Williams 22 og Holmgren 21.

Dallas mætir annað hvort Denver Nuggets eða Minnesota Timberwolves í úrslitum Vesturdeildarinnar. Liðin mætast í oddaleik í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×