Eftir skuldabréfaútboð í síðasta mánuði er Landsvirkjun komin á lygnan sjó eftir þá ólgu sem hrunið olli. Hörður Arnarson forstjóri segir að ef fyrirtækið myndi ákveða að ráðast ekki í nýjar fjárfestingar og greiða ekki arð á þessu tímabili þá gæti það greitt upp allar skuldir félagsins á 10-12 árum. Ekki þurfi að endurfjármagna skuldirnar því fyrirtækið geti nú greitt þær með tekjum frá rekstrinum.
Raforkusalan er að skila 25 milljörðum króna á ári í handbært fé. 20 milljarðar af þeim fara á þessu ári til að greiða niður erlend lán fyrirtækisins, að sögn Harðar. Með sama áframhaldi mun Landsvirkjun eiga allar sínar virkjanir skuldlausar, þar á meðal hina umdeildu Kárahnjúkavirkjun, eftir tíu til tólf ár.
Hörður segir að smíði Kárahnjúkavirkjunar og rekstur hafi gengið mjög vel og það sé að hjálpa mjög mikið. Ljóst sé að Kárahnjúkavirkjun hafi verið mjög stór biti, og mikil stækkun á eignasafni Landsvirkjunar, en fyrirtækið hafi ráðið við það.
"Það er ljóst að hækkandi álverð og lágir vextir hafa hjálpað fyrirtækinu að ráða við þessa stöðu," segir Hörður.
Eigið fé Landsvirkjunar nálgast nú tvöhundruð milljarða króna, en þó má telja verðmætið mun meira því vatnsaflsvirkjanir eru í bókhaldinu afskrifaðar á 60 árum. Líftími virkjananna sé hins vegar mun lengri, að sögn Harðar, og þær geti starfað í 100 ár og þessvegna umtalsvert lengur. Þar myndist því dulin eign.
Og eigandinn, ríkissjóður Íslands, gæti búist við ágætis arði frá skuldlausri Landsvirkjun eftir áratug. "Miðað við núverandi stöðu þá er arðgreiðslugetan upp á svona 25 milljarða á ári," segir forstjóri Landsvirkjunar.