Innlent

Gæti gosið á morgun eða eftir tuttugu ár

Hekla 26. febrúar 2000
Hekla 26. febrúar 2000 Mynd/Vilhelm Gunnarsson
„Hún er búin að vera tilbúin að gjósa síðustu þrjú eða fjögur ár," segir Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Fjallað hefur verið um það í fjölmiðlum undanfarna daga að hreyfingar séu undir Heklu og hún sé að gera sig líklega til að gjósa.

Gunnar segir að hreyfingarnar sem mældust undir Heklu fyrir helgi séu ekki miklar. Engin þensla sé undir fjallinu og þær hafi að mestu gengið til baka í gær og fyrradag.

Engir jarðskjálftar séu á svæðinu og á meðan jörð skelfur ekki, séu ekki miklar líkur á að kvikan nái að brjóta sér leið upp á yfirborðið. „Þó veit maður aldrei þegar að eldfjöll eru annars vegar," segir hann og bendir á að mikil kvika sé undir fjallinu sem hafi verið á smá hreyfingu fyrir helgi. „Það eru allir möguleikar opnir - hún gæti gosið á morgun eða eftir tuttugu ár," segir Gunnar.

Oft hefur verið talað um að Hekla gjósi á tíu ára fresti en hún gaus síðast 26. febrúar árið 2000 - svo samkvæmt því er hún aðeins á eftir áætlun. „Hún er búin að vera þanin út síðan og verið svipuð undanfarin ár," segir hann. „Það er ekkert yfirvofandi að það sé gos að hefjast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×