Viðskipti innlent

Gagnrýna leynd yfir framleiðslu Orkuveitunnar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Kjartan Magnússo telur eðlilegt að framleiðslan í orkuverum Orkuveitunnar sé gerð opinber.
Kjartan Magnússo telur eðlilegt að framleiðslan í orkuverum Orkuveitunnar sé gerð opinber. Fréttablaðið/Anton
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur segjast gera alvarlegar athugasemdir við að enn hafi ekki verið afgreiddar tillögur þeirra um auknar mælingar á loftgæðum og um að aflétt verði leynd af framleiðslutölum orkuvera fyrirtækisins.

Tillögurnar voru báðar lagðar fram á stjórnarfundi OR 23. júní í sumar. Önnur er um að aflétt verði leynd af yfirliti dótturfyrirtækisins Orku náttúrunnar (ON) um orkuframleiðsluna á tímabilinu maí 2013 til maí 2014.

„Teljum við að upplýsingar um framleiðslu virkjana OR eigi tvímælalaust að vera almenningi tiltækar eins og upplýsingar um rekstur annarra fyrirtækja í almannaeigu,“ segir í bókun sjálfstæðismannanna Kjartans Magnússonar og Áslaugar Friðriksdóttur á stjórnarfundi síðastliðinn föstudag.

Haraldur Flosi Tryggvason, formaður stjórnar OR, segir stjórn Orku náttúrunnar hafa sent Orkuveitunni framleiðslutölurnar í trúnaði.

„ON er ætlað að starfa á samkeppnismarkaði og þau hljóta að hafa sjálfdæmi um það hvað þau telji að þurfi að fara leynt til þess að þau geti keppt á jafnræðisforsendum. Ég er enginn talsmaður þess að halda einhverju leyndu sem tengist almannahagsmunum en þetta er vandrataður vegur þegar starfsemin er komin í samkeppnisform,“ segir Haraldur.

Haraldur Flosi Tryggvason, formaður stjórnar OR.
Hin tillaga sjálfstæðismanna er um að bæta vöktun á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti í eystri hverfum borgarinnar. Settar verði upp síritandi loftgæðamælistöðvar í Breiðholti annars vegar og í Úlfarsárdal og Grafarholti hins vegar og „tryggja þannig að almenningur sé ætíð upplýstur um loftgæði á áhrifasvæði Hellisheiðarvirkjunar“, segir í tillögunni.

Kjartan bendir á að sjálfstæðismenn hafi sett fram svipaða tillögu fyrir tæpu ári sem ekki hafi hlotið fullnaðarafgreiðslu.

„Vandinn er kortlagður og vísindamenn sem hafa um þetta fjallað segja að það sé ekkert að græða á því að mæla meira,“ svarar Haraldur og bendir á að það myndi kosta milljónir króna að setja upp fyrrgreinda loftgæðamæla.

„Það sem þarf að gera er að finna leiðir til að tryggja að magn þessara efna séu undir ákveðnum lágmörkum. Við höfum frest til að fullkanna þá aðferð að dæla þessum efnum niður í jörðina og höfum fengið mjög góðar vísbendingar um að það sé raunhæft. Samhliða á að reisa sérstaklega hannaðan háf sem, þegar á þarf að halda, blæs lofttegundunum upp fyrir veðurkerfin sem færa þessi efni inn í borgina,“ segir formaður stjórnar OR," segir formaður stjórnar Orkuveitunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×