Innlent

Gagnrýnir spurningaþátt á RÚV

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, telur það gagnrýnisvert að RÚV ætli að gefa tíu milljónir króna til þeirra sem svara öllum spurningum rétt í þættinum Vertu Viss.

Spurningaþátturinn Vertu viss í umsjón Þórhalls Gunnarssonar hefur göngu sína á RÚV um næstu helgi. Þátttakendur geta unnið tíu milljónir króna ef þeir svara öllum spurningum rétt.

Ragnheiður tók málið upp á Alþingi í dag og vísaði í auglýsingu á RÚV í gær þar sem þátturinn er kynntur.

„Ekki veit ég hvaðan þetta fé á að koma en eitt veit ég að kostun er ekki leyfð í Ríkisútvarpinu. Ætli Ríkisútvarpið að taka þessar 10 milljónir af skattfé almennings til þess að veita svo einhverjum sem svarar spurningum rétt þá, virðulegi forseti, ef það er með þessum hætti þá er það með ólíkindum,“ sagði Ragnheiður.

Hún vill að RÚV endurskoði þennan þátt.

„Á sama tíma og verið er að leita í hverju skúmaskoti eftir krónu til þess að  fjármagna hér ýmsa þætti þá ætlar stofnun sem er rekin af skattfé almennings að fara fram með þessum hætti. Virðulegi forseti, oft hefur mér þótt ýmsu ábótavant hjá mínu ágæta Ríkisútvarpi en þessi auglýsing þeirra í gær um eigin þátt gekk algerlega fram af mér og ég vona að það verði umræðu í þá veru að af þessu verði ekki,“ sagði Ragnheiður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×