Innlent

Ganga um og eyða lúpínu á Reykjanesi

Sveinn Arnarsson skrifar
Lúpína upprætt á mel efst í Kvennagönguskarði á Vogastapa. Vogar sjást í baksýn.
Lúpína upprætt á mel efst í Kvennagönguskarði á Vogastapa. Vogar sjást í baksýn. Mynd/SJÁ
Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd hafa auglýst tvær ferðir á Reykjanesið í þeim tilgangi að rífa upp lúpínu. Segir Þorvaldur Örn Árnason, forsvarsmaður sjálfboðaliðasamtakanna, þetta nauðsynlegt til að halda lúpínunni í skefjum. Lúpínan hefur oft á tíðum verið mjög umdeild planta meðal íslenskra áhugamanna um landgræðslu.

Fyrri ferð sjálfboðaliðasamtakanna verður farin 24. maí næstkomandi til að halda þjóðleið milli Voga og Njarðvíkur opinni. Þar segja forsprakkar samtakanna að lúpínan sé að afmá þjóðleiðina af yfirborði jarðar með framgangi sínum. Í lok júní verður svo haldið í tveggja daga ferð um Reykjanesfólkvang, í samvinnu við landverði, og lúpína rifin upp með rótum.

„Lúpínan er þannig að hún er skaðvaldur í mínum huga,“ segir Þorvaldur Örn. „En þetta er umdeild planta. Sumir segja alls staðar og aðrir vilja hvergi hafa hana. Mér finnst hún eiga rétt á sér við ræktun skóga en þá þarf að huga að því í upphafi hvar eigi að stoppa hana. Því fátt stöðvar framgang hennar. Við erum búin að vera í þessu í um fimm ár á stöðum þar sem mikið var um lúpínu. Nú er þetta viðráðanlegra.“

Þorvaldur Örn Árnason
Sjálfboðaliðasamtökin munu fá liðsinni frá Hafnarfjarðarbæ á Reykjanesfólkvangi í lok júní. „Þá munum við fá flokka frá Vinnuskóla Hafnarfjarðar til að halda lúpínu í skefjum og erum í samvinnu við landverði á svæðinu,“ segir Þorvaldur Örn.

Sigurður Arnarson, fyrrverandi skógarbóndi, hefur skrifað bók um belgjurtir á Íslandi og segir ekki gott að eyða skuli tíma vinnuskólabarna í þetta verkefni. „Nær væri að nýta tíma í að planta birki á svæðinu. Ég get alveg skilið þá afstöðu að lúpína eigi ekki heima sums staðar, það er sjónarmið út af fyrir sig. Hins vegar er ekki skynsamlegt að rífa upp plöntugróður í gróðurlausri auðn,“ segir Sigurður. „Lúpínan getur vel hjálpað til við uppgræðslu birkis og þá er hægt að skila jörðinni til baka eins og hún var líklega fyrir um 1.100 árum.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×