Innlent

Garðbæingar fara á klósettið á kostnað Hafnfirðinga

Gestir Ikea fara á klósettið í boði Hafnfirðinga.
Gestir Ikea fara á klósettið í boði Hafnfirðinga.

„Þetta er náttúrulega skítamál," segir Ingimar Ingimarsson, nefndarmaður í framkvæmdarráði Hafnarfjarðarbæjar, en bæjarfélagið hefur reynt að fá Garðabæ til þess að borga fyrir afnot af fráveitukerfi Hafnarfjarðar síðastliðin fimm ár.

Verslunarbyggð, sem tilheyrir Garðabæ og er við rætur Hafnarfjarðar, nýtir sér fráveitukerfið.

Ingimar segir talsvert álag á kerfinu en meðal þeirra verslana sem nýta sér fráveituna er Ikea.

Það var síðan loksins samþykkt á bæjarráðsfundi Garðabæjar að fela bæjarstjóra Garðabæjar að ræða við bæjarstjóra Hafnarfjarðar um uppgjör kostnaðar fyrir liðið tímabil og leita samninga um áframhaldandi samstarf.

Aðspurður hversvegna málið sé ekki í höndum embættismanna, heldur bæjarstjóranna sjálfra, svarar Ingimar því að embættismannaleiðin hafi verið fullreynd.

Kostnaðurinn sem um ræðir eru hugsanlega tugur milljóna, „ef þetta verður rétt reiknað," bætir Ingimar við. Þó sýnist sitt hverjum en deilt er um hversu mikinn kostnað Garðbæingar eigi að bera vegna fráveitukerfisins sem kostaði fjóra milljarða króna.

Ingimar segir að Garðabær hafi að auki rukkað fyrirtæki á svæðinu fyrir notkun á fráveitukerfinu án þess að það skilaði sér til Hafnfirðinganna.

„Við höfum margoft bókað um þetta mál," segir Ingimar og vill meina að nefndarmenn framkvæmdarráðs séu orðnir frekar pirraðir á þessu máli enda gengið lengi á eftir Garðbæingum vegna þessa.

„Enda eru Garðbæingarnir að fara á klósettið á kostnað Hafnfirðinga," segir Ingimar um þessa harðvítugu deilu á milli bæjarfélaganna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×