Innlent

Gefur ekki upp hvað hann mun kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni

Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum þegar hann synjaði lögunum um Icesave.
Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum þegar hann synjaði lögunum um Icesave.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, gefur ekki upp hvað hann ætlar að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-frumvarpið sem verður haldin í mars. Það var fréttaspyrill hjá Reuters sem spurði Ólaf Ragnar hvað hann hygðist kjósa.

„Ég hef ekki gefið upp afstöðu mína um það hvað ég mun kjósa," sagði Ólafur Ragnar í viðtalinu og bætti við að synjun á undirskrift laganna hafi einmitt verið til þess gerð að leyfa þjóðinni að eiga síðasta orðið í þessu umdeilda máli.

Ólafur Ragnar útskýrði svo vel og vandlega hvað myndi gerast ef Íslendingar synjuðu lögunum staðfestingu auk þess sem hann áréttaði enn og einu sinni að íslenska ríkið myndi ekki hlaupast undan skuldinni, þvert á móti myndi ríkið standa við sínar skuldbindingar.

Þá benti Ólafur Ragnar á að Icesave-skuldin væri svo mikil fjárhagsleg byrði á íslenska skattgreiðendur að það væri hægt að líkja því við ef Bretar þyrftu að borga 700 milljarða punda.

Spyrillinn, Steve Tyler, sagði síðan við Ólaf Ragnar að hann hljómaði eins og maður sem myndi kjósa gegn Icesave-frumvarpinu. Ólafur Ragnar brást þá heldur hart við og sagðist eingöngu vera að reyna útskýra málið.

Í lok viðtalsins sagði Ólafur Ragnar að framtíð Íslands væri björt enda landið uppfullt af hreinni orku og vatni; auðlindir sem spáð er miklu verðmæti í framtíðinni.

Hægt er að skoða myndbandið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×