Viðskipti innlent

Gengi krónunnar hefur veikst gagnvart flestum myntum

Þó nokkur veiking hefur orðið á gengi krónunnar það sem af er ári. Nú stendur gengisvísitala krónunnar í 214 stigum en um síðustu áramót stóð vísitalan í 207 stigum. Þessa þróun má rekja til nánast allra undirliggjandi mynta sem þarna koma við sögu, en þar spilar þróun á gengi krónunnar gagnvart evru stærsta hlutverkið.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þannig vegur evran um helming vísitölunnar þegar tekið er tillit til þeirra gjaldmiðla, eins og dönsku krónunnar og litháensku litas, sem eru festir við gengi evru.

Nú kostar evran rétt tæpar 159 krónur en um síðustu áramót var hún á rétt rúmar 153 krónur. Jafngildir þetta veikingu krónunnar gagnvart evru upp á tæp 4%.

Sá gjaldmiðill sem vigtar næstmest í gengisvísitölu krónunnar, eða tæp 13%, er breska pundið en það hefur sótt þó nokkuð í sig veðrið frá áramótum, þá einna helst í janúarmánuði. Nú kostar pundið um 190 krónur en um síðustu ármót var það á 180 krónur og nemur veiking krónunnar gagnvart pundinu á tímabilinu þar með tæpum 5%.

Gagnvart Bandaríkjadollar, sem vigtar rúm 10% í gengisvísitölunni, hefur krónan veikst um rúm 2%. Nú í morgun stóð Bandaríkjadollar í 118 krónum en kostaði um síðustu áramót rúmar 115 krónur.

Í raun hefur krónan veikst gagnvart öllum þeim myntum sem hafa áhrif á gengisvísitöluna að tveimur myntum undanskildum, þ.e. gömlu lávaxtamyntunum svissnesku frönkum og japönskum jenum sem vega hvort um sig rétt rúm 2% í gengisvísitölunni. Gagnvart þeirri fyrrnefndu hefur krónan styrkst um tæp 2% en gagnvart þeirri síðarnefndu er gengið nánast óbreytt.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×