Viðskipti innlent

Gengi notað til verðhækkana en ekki lækkana: "Forkastanleg vinnubrögð"

Jóhannes Gunnarsson segir það fyrirtækjum til skammar að lækka ekki verð þegar gengið styrkist.
Jóhannes Gunnarsson segir það fyrirtækjum til skammar að lækka ekki verð þegar gengið styrkist.
„Þetta er staðfesting á því sem við höfum haldið fram oft á tíðum, sem er að fyrirtæki eru fljót að hækka verð þegar gengið veikist, en þegar það styrkist gengur illa að fá verðlækkun," segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, um niðurstöðu rannsóknarritgerðar, sem unnin er á vegum Seðlabankans og gefur mikilvæga innsýn í verðlagningu íslenskra fyrirtækja á vörum og þjónustu.

Í ritgerðinni segir orðrétt:

„Önnur áhugaverð niðurstaða rannsóknarinnar snýr að ósamhverfum áhrifum gengisbreytinga á verð. Í ljós kemur að fyrirtæki voru mun líklegri til þess að hækka verð eftir gengisfall en lækka það eftir gengisstyrkingu. Sérstaka athygli vekur að þriðjungur fyrirtækja sem voru ekki útsett með beinum hætti fyrir gengisbreytingum hækkuðu verð sitt eftir 30% gengislækkun á fyrri hluta ársins 2008 á meðan ekkert þeirra lækkaði verðið í kjölfar 10% gengisstyrkingar ári fyrr."

Jóhannesi blöskrar framferðið og segir í viðtali við Vísi: „Þetta eru forkastanleg vinnubrögð."

Svo virðist sem fyrirtæki nýti sér gengissveiflur til þess að hækka verð á vörum og svo ganga þær sjaldan til baka.

„Ég minni á að heimilin í landinu berjast í bökkum og þetta er síst til þess fallið að auðvelda þeim lífið," segir Jóhannes.

Spurður hvaða úrræði Neytendasamtökin hafi í aðstæðum sem þessum, svarar Jóhannes því til að samtökin geti í raun fátt að gert.

„Við gerðum það á tímabili, þegar gengið var að veikjast og styrkjast, þá fengum við verðbreytingar hjá birgjum og birtum á vefnum til þess að veita verslunum aðhald," segir Jóhannes sem útilokar ekki að samtökin geri það aftur.

Hann ítrekar að aðhald neytenda skipti höfuðmáli, og hvetur þá til þess að vera duglegir að láta samtökin vita leiki grunur á að verðlag sé með óeðlilegum hætti.

„Krafa okkar er einföld. Ef vöruverð hækkar í samræmi við veikingu krónunnar, á það að lækka á sama hátt þegar hún styrkist," segir Jóhannes og bætir við: „Ef verðið lækkar ekki þá er það fyrirtækjunum til skammar."


Tengdar fréttir

Gengið notað til verðhækkana en ekki lækkana

„Önnur áhugaverð niðurstaða rannsóknarinnar snýr að ósamhverfum áhrifum gengisbreytinga á verð. Í ljós kemur að fyrirtæki voru mun líklegri til þess að hækka verð eftir gengisfall en lækka það eftir gengisstyrkingu. Sérstaka athygli vekur að þriðjungur fyrirtækja sem voru ekki útsett með beinum hætti fyrir gengisbreytingum hækkuðu verð sitt eftir 30% gengislækkun á fyrri hluta ársins 2008 á meðan ekkert þeirra lækkaði verðið í kjölfar 10% gengisstyrkingar ári fyrr.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×