Innlent

Gerðu hróp að borgarfulltrúum

Foreldrum var heitt í hamsi og gerðu hróp að borgarfulltrúum á tveimur fundum í dag. Þeir mótmæltu áformum um sameiningu skóla og hagræðingu í menntakerfi Reykjavíkurborgar.

Foreldrar leik- og grunnskólabarna fjölmenntu á fundi þar sem borgarstjórnarmeirihluti Reykjavíkuur kynnti hagræðingartillögur sínar í skólum tveggja hverfa í dag. Jón Gnarr og Oddný Sturludóttir fluttu framsögur á fundunum, og sátu svo fyrir svörum ásamt embættismönnum af menntasviði.

Fyrri fundurinn fór fram í Rimaskóla Grafarvogi í morgun, en þar ályktaði fundurinn gegn tillögum meirihlutans um sameiningar leik- og grunnskóla. Til stóð að Hjálmar Sveinsson, varaborgarfulltrúi myndi stýra fundinum, en foreldrar tóku sig saman og skipuðu nýjan fundarstjóra.

Ekki var mikið rólegra yfir síðari fundinum í Breiðholtsskóla, en fundurinn leystist iðulega upp vegna framíkalla foreldranna, sem lýstu sumir ítrekað yfir óánægju sinni með svör pallborðsins.

Einnig var með lófataki samþykkt ályktun frá fundinum í Breiðholti. Fundurinn mælti gegn meintri aðför að Breiðholtinu og skoraði á borgarráð að falla frá sameiningaráformum í skólum hverfisins,en sumir foreldranna lýstu áhyggjum af því að Breiðholtið stæði höllum fæti fyrir og færi verr út úr sameiningum en önnur hverfi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×