Skoðun

Getum við náð góðum samningi við ESB?

Baldur Þórhallsson skrifar
Íslenskum stjórnvöldum hefur gengið misvel að semja við nágrannaþjóðir okkar. Samningar um útfærslu landhelginnar voru flestir vel heppnaðir en Icesave-samningarnir voru óásættanlegir að mati meirihluta þjóðarinnar. Þegar horft er til samningaviðræðna um bættan aðgang að mörkuðum Evrópu er stórmerkilegt hversu vel hefur tekist til.

Þetta á við um alla þrjá helstu samningana, þ.e. inngönguna í EFTA árið 1972, fríverslunarsamninginn við ESB tveimur árum síðar og aðildina að EES árið 1994. Það sama má segja um Schengen-samninginn. Íslendingar náðu nær öllum kröfum sínum fram í þessum viðræðum um bættan markaðsaðgang og verndun sjávarútvegs og landbúnaðar. Krafan um betra aðgengi að ákvarðanatöku innan Schengen náði einnig fram að ganga. Þetta gerðist hins vegar ekki átakalaust.

Það sýnir okkur hvers við erum megnug, hvers lítil þjóð er megnug, þegar hún hefur skýr samningsmarkmið og stendur fast á sínu. Þetta sýnir einnig að ríki Evrópu taka fullt tillit til hagsmuna okkar eins og á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar.

Þau reyna að sjálfsögðu að tryggja eigin hagsmuni í yfirstandandi aðildarviðræðum við ESB. Setji íslensk stjórnvöld hins vegar fram skýr samningsmarkmið og fylgi þeim eftir með góðum rökstuðningi er leiðin greið. Þetta á við um atriði eins og mikilvægi íslensks sjávarútvegs, eflingu byggðar og stuðning Seðlabanka Evrópu við íslensku krónuna áður en tekin verður upp evra. Við höfum söguna með okkur. Nú reynir á samninganefnd Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×