Innlent

Gilz stýrir Húkkaraballinu í Eyjum í ár

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Egill Einarsson spilar sem MuscleBoy á Húkkaraballinu um verslunarmannahelgina.
Egill Einarsson spilar sem MuscleBoy á Húkkaraballinu um verslunarmannahelgina. Fréttablaðið/Arnþór
Egill Einarsson mun stýra árlegu Húkkaraballi fyrir Þjóðhátíð í Eyjum. Agli líst vel á að ballið verði haldið utandyra. Tímabært er talið að brjóta upp gamlar hefðir.

Húkkaraballið svokallaða verður haldið með breyttu sniði í ár. Ballið verður í fyrsta skipti utandyra og þá sem Stuðlagaball Gillz. Þetta staðfestir Egill Einarsson sjálfur í samtali við Fréttablaðið.

Egill hefur haldið álíka kvöld undanfarið á landsbyggðinni og fullt hefur verið út úr dyrum. Hann kallar sig MuscleBoy á sviði.

„MuscleBoy hefur einungis spilað á tveimur böllum. Að fá svona risaball eftir einungis tvö gigg er frábært enda er strax farið að tala um mann sem einn virtasta DJ landsins,“ segir Egill.

Einnig hefur verið tilkynnt að Húkkaraballið verði í fyrsta sinn haldið utandyra í ár. Ástæða þess að bregða á út af vananum og halda ballið úti er einföld segir Hörður Orri Grettisson. Tími sé kominn til þess að brjóta upp gamlar hefðir og óviðeigandi hafi þótt að hafa ballið á íþróttasvæðinu.

„Þetta hefur verið með sama sniði í mörg ár og okkur langaði að prófa eitthvað nýtt. Við ætlum því að reyna að vera úti ef veður leyfir,“ segir Hörður.

Sjálfur segist Egill spenntur að fá að spila utandyra. „Mér líst líka mjög vel á það hjá Þjóðhátíðarnefndinni að halda ballið úti núna. Það væri rosalegt að sjá „glowstickin“ í smá rigningu í takt við alvöru tónlist,“ segir Egill og tekur fram að það sé mikill heiður fyrir sig að fá að taka þátt í hátíðinni með þessum hætti.

„Ég fór á mínu fyrstu Þjóðhátíð tveggja ára og á mikið af frændfólki í Eyjum. Ég sagði við Tinnu Tomm frænku mína þegar ég var sex ára að ég myndi einhvern tíma spila á Þjóðhátíð. Hún grét úr hlátri, en hver hlær í dag?“ spyr Egill kíminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×