Innlent

Gísli Freyr kominn í lúxus-ferðaþjónustu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Gísli Freyr hefur hafið störf sem sölustjóri hjá Luxury Adventures.
Gísli Freyr hefur hafið störf sem sölustjóri hjá Luxury Adventures. Vísir/Stilla/Ernir
Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra, er kominn í ferðaþjónustubransann. Hann hefur hafið störf hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Luxury Adventures, sem eins og nafnið gefur til kynna býður upp á lúxusferðir.

„Það er fínt að láta lífið halda áfram einhvern vegin,“ segir Gísli Freyr um nýja starfið. „Maður var kominn í þá stöðu að þurfa bara að finna sér vinnu og sjá fyrir fjölskyldunni.“

Gísli kveðst ánægður hjá Luxury Adventures. „Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég bara venjulegur fjölskyldufaðir,“ segir Gísli, „Ég er náttúrulega bara feginn að vera kominn með vinnu.“

Hann segir spennandi að vinna í ferðaþjónustu og segist ánægður með starfið.

Á vefsíðu fyrirtækisins er Gísli talinn upp á meðal lykilstarfsmanna fyrirtækisins en hann er sölustjóri. Í umfjöllun um Gísla Frey á síðunni kemur fram að hann hafi unnið hjá Hótel Sögu og sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Ekki er minnst á störf hans fyrir innanríkisráðuneytið þar sem hann starfaði sem pólitískur aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Gísli hraktist úr starfi eftir að hann viðurkenndi að hafa lekið trúnaðargögnum úr ráðuneytinu.

Guðjón Valberg, markaðsstjóri hjá Luxury Travel, segir fyrirtækinu gangi vel. „Við erum að vinna kannski á þessum lúxusmarkaði,“ segir Guðjón sem segir aðspurður að stígandi hafi verið í þeirri tegund ferðaþjónustu eins og annarri. „Þetta er búið að vera mjög gott.“

Uppfært klukkan 10.58.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×