Innlent

Gjaldskrár hækka um áramótin

JHH skrifar
Börn á leikskóla.
Börn á leikskóla. Mynd/ Ernir.
Gjaldskrár hjá leikskólum, frístundaheimilum og í skólamötuneytum hækka um áramótin.

Leikskólagjald fyrir átta stunda vistun verður frá og með 1. janúar 25.880 krónur á mánuði, en var áður 24.501 krónur. Foreldrar sem eiga tvö börn í leikskóla og/eða annað hjá dagforeldri fá áfram 75% afslátt af námsgjaldi annars barns og þriðja barn nýtur 100% afsláttar af námsgjaldi, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Frístundagjald verður frá og með 1. janúar 11.940 krónur á mánuði fyrir 5 daga vistun, en var áður 11.300 krónur. Foreldrar sem eiga tvö börn á frístundaheimili fá áfram 75% afslátt af frístundagjaldi annars barns og þriðja barn nýtur 100% afsláttar.

Gjald fyrir mánðarlega mataráskrift í skólamötuneyti verður frá og með 1. janúar 6.600 krónur á mánuði, en var áður 6.200 krónur. Foreldrar greiða skólamáltíð fyrir tvö börn en önnur njóta 100% afsláttar.

Eftir þessar hækkanir verða leikskólagjöld , frístundagjöld og mötuneytisáskrift í Reykjavík sem fyrr með þeim lægstu í landinu enda yfirlýst stefna borgarinnar að gjaldskrár skuli vera sanngjarnar og taka mið af aðstæðum barnmargra fjölskyldna.

Hækkanir fyrrgreindra gjalda eru í samræmi við samþykkt borgarstjórnar um gjaldskrárbreytingar og frumvarp að fjárhagsáætlun fyrir árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×