Skoðun

Gleðilegt sumar

Hanna Birna Kristjánsdóttir skrifar
Í dag fögnum við fyrsta degi sumars. Þótt íslenska veðrið gefi ekki alltaf til kynna upphaf þess tíma látum við Íslendingar það lítið á okkur fá og fögnum sumarkomu, hvort sem það blæs, rignir eða snjóar.

Það er þessi kraftur og þessi bjartsýni sem gerir samfélagið okkar svo sérstakt og skapar svo mörg tækifæri til sóknar og sérstöðu. Veðurbrigðin í lífinu eiga nefnilega jafnt við um samfélög, fjölskyldur og einstaklinga. Það skiptast einfaldlega á skin og skúrir, en á okkur öllum hvílir samt alltaf sú ábyrgð að halda samt áfram – ganga yfir skaflana og standa af okkur stormana svo njóta megi síðar sólar og sumars.

Þetta er viðhorfið sem þarf að einkenna Ísland, sem nú stendur á tímamótum og tekst á við nýjar áskoranir, nýja framtíð. Bjartsýnin, gleðin og sóknarhugurinn sem tengist sumarkomunni þarf að einkenna samfélagið á hverjum degi. Þannig höfum við náð árangri í fortíðinni og þannig munum við áfram ná árangri. Við stjórnum ekki því sem liðið er en við getum haft áhrif á framtíðina.

Burtséð frá einstaka verkefnum þá er sátt og samstaða um það að halda áfram – gera betur í dag en í gær – mikilvægara en flest annað fyrir framtíðina. Að vera sammála um að stefna lengra, nýta tækifærin og hafa trú á okkur sjálf og fólkið okkar skapar forsendur til að byggja upp frábært samfélag til framtíðar. Við getum tekist á um einstaka dægurmál á málefnalegan hátt en verið sammála um að gera alltaf það besta fyrir land okkar og þjóð.

Í dag er því við hæfi að taka sameiginlega ákvörðun um einmitt það. Þegar við fögnum sumri að íslenskum sið á þessum góða degi – flöggum fánum okkar og njótum samveru með okkar nánustu – skulum við því um leið taka á móti nýjum tímum með þeim góðu fyrirheitum, krafti, bjartsýni sem hefur, á og verður að einkenna þessa þjóð á einmitt þessum degi.

Gleðilegt sumar.




Skoðun

Sjá meira


×