Innlent

Góðkunningi Íslendinga slær í gegn í Ölpunum

Frá gerð Kárahnjúkavirkjunar í mars 2004. Mynd/karahnjukar.is
Frá gerð Kárahnjúkavirkjunar í mars 2004. Mynd/karahnjukar.is
Gamall „góðkunningi" Íslendinga gegnir stóru hlutverki við gerð Gotthard-jarðganganna í svissnesku Ölpunum. Þetta er risaborinn TBM-1, en hann var einn þriggja risabora sem boruðu aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar, milli Hálslóns og Fljótsdals.

Eftir að borinn lauk verkefni sínu á Íslandi var hann fluttur til Sviss til að bora Gotthard-göngin, en alls eru risaborarnir þar fjórir; við að bora tvenn samhliða göng. Þeir slógu einmitt í gegn þar í gær, þegar þeir rufu síðasta haftið, og komust með því í heimsfréttirnar, enda verða Gotthard-göngin lengstu járnbrautargöng í heimi, 57 kílómetra löng.

Það var vorið 2004 sem TBM-1 byrjaði að bora í Kárahnjúkum, en samtals boraði hann 15 kílómetra af þeim 50 kílómetrum, sem risaborarnir þrír boruðu hérlendis. Göngin í Kárahnjúkavirkjun eru þó samtals mun lengri, eða 73 kílómetrar, en 23 kílómetrar af þeim voru sprengdir með hefðbundinni aðferð. TBM-1 var fyrsti boranna þriggja sem lauk verkefni sínu hérlendis og var hann fluttur úr landi árið 2007, en síðasti borinn lauk störfum í Kárahnjúkum í apríl 2008.

Sveitarstjórnarmenn á Austfjörðum lögðu hart að stjórnvöldum, án árangurs, að halda einum risabornum eftir í landinu til að bora bílagöng enda reyndust afköst þeirra afar mikil. Þannig setti einn boranna heimsmet í Kárahnjúkagöngum þegar hann boraði 115 metra á einum sólarhring.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×