Innlent

Götusópur féll á hliðina og eyðilagðist

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Götusópurinn féll killiflatur á leið sinni yfir Gullinbrú.
Götusópurinn féll killiflatur á leið sinni yfir Gullinbrú.
Götusópur í eigu Hreinsitækni ehf. féll á hliðina á leið sinni yfir Gullinbrú um hádegisleytið í dag. Slík tæki kosta á bilinu 16- 24 milljónir. Lárus Jónsson, framkvæmdarstjóri Hreinsitækni segir líklegt að tækið sé gerónýtt.

„Þetta eru lítil tæki sem eru með fulla tunnu af vatni og sandi. Þegar ökumaðurinn fer í gegnum beygjur þar sem malbik er lélegt hendist vatnið og þunginn á aðra hlið tunnunnar, og þá getur tækið auðveldlega oltið á hliðina.“

Lárus segir að malbik sé víða lélegt í borginni. „Ökumaður sópsins fór ofan í djúp hjólför í malbiki sem þarfnast viðhalds. Þetta eru mjó tæki og erfitt að eiga við þau í svona aðstæðum þó fólk reyni auðvitað eftir bestu getu að passa sig. Þetta var algjört óhapp.“

Ökumanni sópsins var ekki meint af veltunni og hélt áfram vinnu sinni á öðru tæki.  Aðra sögu er hins vegar að segja af sópnum. „Ég reikna með að hann sé ónýtur, sem er auðvitað slæmt, þessi tæki eru nú ekki ókeypis,“ segir Lárus, og bætir því við að nýr götusópur af samskonar gerð kosti á bilinu 16 – 24 milljónir án vsk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×