Innlent

Grænt ljós gefið á gufulögnina

Svavar Hávarðsson skrifar
Borgarráð felst á að tengja Hellisheiðarvirkjun við borholur í Hverahlíð
Borgarráð felst á að tengja Hellisheiðarvirkjun við borholur í Hverahlíð mynd/Vilhelm
Borgarráð veitti í gær að Orkuveitu Reykjavíkur samþykki sitt fyrir að tengja Hellisheiðarvirkjun við borholur í Hverahlíð.

Stjórn Orkuveitunnar fór þessa á leit í sumar eftir að í ljós kom að virkjunin var ekki sjálfbær og afköst fallin vel niður fyrir uppsett afl hennar.

Tillaga OR var samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna, greiddi atkvæði á móti og lagði fram bókun þess vegna.

Uppsett afl virkunarinnar er 303 megavött (MW) og framleiddi á fullum afköstum fram til síðustu áramóta. Hún getur í dag mest framleitt 276 megavött. Vísindamenn OR áætla að afköst muni falla um sem jafngildir sex megavöttum á ári að meðaltali.

Besta leiðin til að viðhalda vinnslu Hellisheiðarvirkjunar er talin að tengja borholur á háhitasvæðinu í Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjun með gufulögn, en í Hverahlíð stefndi OR á að byggja næstu stóru jarðhitavirkjun sína. Gróft kostnaðarmat framkvæmdarinnar er um þrír milljarðar króna.

Bókun Sóleyjar Tómasdóttur, borgarráðsfulltrúa Vg, var eftirfarandi: Tenging borholanna í Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjun er skammtímalausn sem tekur ekki á hinum raunverulega vanda sem alltof miklar væntingar til afkastagetu á svæðinu hafa skapað. Tenging þessara háhitavirkjana getur hljómað freistandi miðað við gefnar forsendur og til skamms tíma. Hún er þó alls ekki áhættulaus og miklar líkur á að hún fresti aðeins vandanum sem mun halda áfram að vaxa.

Lausnin er auk þess sett fram án þess að kannaðir hafi verið kostir þess að endursemja um verð eða gera tilraun til að fá önnur orkufyrirtæki til að yfirtaka einhvern hluta samninganna sem Orkuveitan hefur ekki getað staðið við. Um orkuöflun á svæðinu ríkir mikil óvissa, það er engan veginn víst að þaðan fáist þau 45 MW sem nú er gert ráð fyrir. Ljóst er að OR mun þurfa að fara í frekari tilraunir, boranir og tengingar til að halda afkastagetunni uppi með tilheyrandi kostnaði og raski.

Tillagan felur sumsé í sér áframhaldandi áhættusækni og ágenga nýtingu jarðhitakerfisins í anda úr sér genginnar stóriðjustefnu og einnig frekari tilraunir á kostnað umhverfis, almennings og komandi kynslóða. Raunafkastageta Hellisheiðarvirkjunar er ekki og verður aldrei 303 MW til lengri tíma. Neiti meirihlutinn að horfast í augu við það mun svæðið verða þurrausið innan örfárra áratuga. Þá fyrst verða góð ráð dýr og ósanngjarnt með öllu að sá kostnaður falli á afkomendur okkar. Það er löngu tímabært að snúa af braut stóriðjustefnunnar og fara að nýta jarðvarmann af varúð og skynsemi í þágu almennings.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna greiðir atkvæði gegn tillögunni og lýsir yfir vonbrigðum með afgreiðslu meirihluta Besta flokks og Samfylkingar, flokka sem á tyllidögum hafa kennt sig við græna framtíð og sjálfbærni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×