Innlent

Greiða atkvæði um vinnustöðvun

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA/Stefán
„Þetta gengur of hægt og nú er farið að styttast í sumarleyfi og annað. Við viljum setja aukna pressu á viðræðurnar til að ná þessu saman áður en við frí. Það þarf að nást í góðan tíma fyrir það svo hægt sé að kjósa um samninginn,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.

Samninganefnd Félags grunnskólakennara hefur falið kjörstjórn Kennarasambands Íslands að framkvæma allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Kennarasambands Íslands í FG er starfa hjá sveitarfélögum landsins um vinnustöðvun dagana 15., 21. og 27. maí 2014 til að stuðla að framgangi fyrirliggjandi krafna félagsins.

Grunnskólakennurum finnst kjaraviðræður við samninganefnd ríkisins ganga of hægt.

„Tæknilega séð erum við búin samningslaus í rúm tvö ár, en það hafa verið viðræður í gangi á síðustu vikum og mánuðum. Nú þarf að fara að setja alvöru trukk í þetta svo hægt sé að klára þetta.“

„Nú er búið að semja bæði hjá framhaldsskólakennurum og BHM [Bandalag háskólamanna]. Okkar viðmiðunarhópar eru fyrst og fremst þar og það hefur skýrt línurnar. Núna er okkur ekkert að vanbúnaði að ljúka þessu,“ segir Ólafur.

Atkvæðagreiðslan mun fara fram þriðjudaginn 22. apríl, en frekari upplýsingar um atkvæðagreiðsluna má sjá á heimasíðu FG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×