Innlent

Gríðarlegt tjón af völdum eldsins

Hanna Rún Sverrisdóttir og Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Gríðarlegt tjón varð þegar húsnæði Trésmiðju Akraness brann nánast til kaldra kola.  Húsið var mannlaust þegar eldurinn kom upp en vegfarendur sem áttu leið hjá tilkynntu um eldinn.

Klukkan var rúmlega níu í kvöld þegar tilkynning barst til slökkviliðsins á Akranesi um eld í húsinu.  Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað á staðinn um 50 manns.

Auk þess komu björgunarsveitarmenn á Akranesi til aðstoðar. Þegar menn sáu hversu mikill eldur var í trésmíðaverkstæðinu var ákveðið að leggja höfuðáherslu á að verja önnur fyrirtæki sem eru í sama húsi og að sögn lögreglunnar á Akranesi virðist það hafa tekist. Húsinu er skipt upp í einingar og er fyrirtæki í hverju bili.

Götum á Akranesi var lokað en mikinn reyk lagði yfir bæinn. Þegar fréttist af eldsvoðanum fóru fjölmargir af stað, sumir á náttbuxunum til að fylgjast með slökkvistarfi. Hlutverk björgunarsveitarmanna var meðal annars að halda fólki í hæfilegri fjarlægð, svo það slasaði sig ekki eða tefði ekki fyrir störfum slökkviliðsmanna.

Þráinn Ólafsson slökkviliðsstjóri á Akranesi segir að slökkviliðsmenn standi vakt við húsið í alla nótt.  Skömmu fyrir miðnætti hafði tekist að ná tökum á eldinum en á nokkrum stöðum logaði í glæðum.  Sá hluti hússins þar sem trésmiðjan var er talinn ónýtur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×