Innlent

Grunaður fíkniefnaframleiðandi með leikskólabarn á heimilinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan við störf að heimili mannsins í gær.
Lögreglan við störf að heimili mannsins í gær.
Aðgerðir lögreglunnar og slökkviliðsins vegna amfetamínverksmiðjunnar í bílskúr í Efstasundi stóðu yfir í að minnsta kosti hálfan sólarhring, samkvæmt heimildum Vísis. Maðurinn sem grunaður er um að bera ábyrgð á framleiðslunni er tæplega fimmtugur fjölskyldumaður með barn á leikskólaaldri á heimili sínu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni verður ákveðið í dag hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir honum.

Vísir hefur fengið staðfest að íbúar í Efstasundi urðu varir við lögreglubíla um klukkan sex í gær. Samkvæmt tilkynningu sem lögreglan sendi út seint um kvöldið fann lögreglan búnað til framleiðslu fíkniefna í bílskúrnum. Haldlögð voru tæki og tól sem og efni til að framleiða fíkniefni. Töluverð eld og sprengihætta getur fylgt framleiðslu af þessu tagi, en í tilkynningu frá lögreglunni kom fram að slík hætta væri ekki til staðar samfara aðgerðum lögreglunnar.

Slökkviliðið var með dælubíl á staðnum allan tímann sem aðgerðir lögreglu stóðu yfir. Þá kom lögreglan fyrir tjaldi í garði við húsið, en þangað voru efnin borin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×