Innlent

Grunur um nauðgun á bekkjarskemmtun HR

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Meintur gerandi er karlmaður á þrítugsaldri og eru þolendurnir tveir kvenkyns samnemendur hans, einnig á þrítugsaldri. Öll stunda þau nám við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík.
Meintur gerandi er karlmaður á þrítugsaldri og eru þolendurnir tveir kvenkyns samnemendur hans, einnig á þrítugsaldri. Öll stunda þau nám við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. vísir/ernir
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar gróft kynferðisbrot sem sagt er hafa átt sér stað á bekkjaskemmtun nemenda Háskólans í Reykjavík helgina 16. til 17. október síðastliðinn. Skemmtunin fór fram á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur.

Meintur gerandi er karlmaður á þrítugsaldri. Tveir kvenkyns samnemendur mannsins við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík eru taldir hafa orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi af hans hálfu. Þær eru einnig á þrítugsaldri.

Þegar leitað var eftir svörum frá skólanum fengust þær upplýsingar frá Eiríki Sigurðssyni, forstöðumanni samskiptasviðs Háskólans í Reykjavík, að skólinn hafi boðið þeim nemendum sem málið snertir alla þá aðstoð sem hann getur veitt. Enn fremur hafi skólinn lagt áherslu á að nám hópsins geti haldið áfram með sem eðlilegustum hætti og að hlutaðeigandi nemendur þurfi ekki að hafa samskipti.

Í yfirlýsingu frá HR segir að fram hafi komið upplýsingar um alvarlegt atvik innan hóps nemenda í frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík, utan skólans. Þá segir í yfirlýsingunni að skólinn geti ekki tjáð sig að öðru leyti um málið, enda séu eðlileg ferli fyrir slík mál hjá þar til bærum yfirvöldum.

Lögreglan vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið leitaði eftir því en haft er eftir Árna Þór Sigmundssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni að hann vilji hvorki staðfesta það né neita því að málið sé til rannsóknar hjá lögreglu.

„Við erum í afar erfiðri aðstöðu til að tjá okkur um rannsóknir einstakra mála og einstaklinga sem eru til rannsóknar,“ segir Árni Þór Sigmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×