Innlent

GT verktakar lagðir í einelti

Forsvarsmenn GT verktaka segja fyrirtækið lagt í einelti af yfirtrúnaðarmanni starfsmanna Kárahnjúka, Vinnumálastofnun og Verkalýðsfélögum. Forsvarsmennirnir segja að þeim ofbjóði yfirlýsingar yfirtrúnaðarmannsins, Odds Friðrikssonar, í Fréttablaðinu í gær um aðbúnað tveggja lettneskra ríkisborgara sem átt hafi að starfa hjá fyrirtækinu. Mennirnir njóti sama aðbúnaðar og aðrir starfsmenn sem starfi á Kárahnjúkum. "Við hjá GT verktökum teljum afskipti Odds yfirtrúnaðarmanns af fyrirtækinu vera orðin siðlaus og hafa skaðað fyrirtækið all verulega," segir í yfirlýsingu forsvarsmannanna. Alltaf sé talað um ólöglega starfsmenn þrátt fyrir að dómstólar hafi ekki skorið úr um hvort svo sé. Fyrirtækið telji sig hafa farið að lögum. Starfsmenn sem búa í sama skála og lettnesku ríkisborgararnir segja mennina hafa það gott. Þeir fái sígaréttur og aðrar nauðsynjar. Mönnunum leiðist vissulega og grípi því stundum í verkin með starfsmönnunum Impregilo en aðeins að eigin vilja og án launa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×