Innlent

Guðbjartur situr enn á skipulagi Ölfuss

Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson, sem var settur umhverfisráðherra um skipulagsmál Ölfuss, eftir að Svandís Svavarsdóttir lýsti sig vanhæfa, hefur ekki enn staðfest aðalskipulag sveitarfélagsins. Ein vika er komin fram yfir þann tíma sem ráðamenn sveitarfélagsins telja stjórnsýslulög veita honum til að afgreiða málið.

37 dagar eru nú liðnir frá því tilkynnt var að Guðbjartur hafi verið settur yfir málið eftir að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lýsti sig vanhæfa til að fjalla um það. Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Ölfuss, telur að samkvæmt stjórnsýslulögum sé eðlilegur tími ráðherra 30 dagar en ráðamenn sveitarfélagsins gagnrýndu í síðasta mánuði þann langa tíma sem það tók Svandísi að lýsa sig vanhæfa.

Hálft ár var þá liðið frá því málið kom inn á borð umhverfisráðherra frá Skipulagsstofnun en það var þann 9. apríl í vor. Það var svo fyrst þann 28. september í haust, eða 172 dögum síðar, sem Svandís lýsti sig vanhæfa, - vegna ummæla sem hún hafði áður látið falla um Bitruvirkjun.

Sigríður Lára Ásbergsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ölfuss, hefur lýst undrun á því að það skyldi taka Svandísi svo langan tíma að komast að því að hún væri vanhæf enda væru nokkur ár frá því ummæli hennar um Bitruvirkjun féllu.

Samkvæmt upplýsingum aðstoðarmanns Guðbjarts Hannessonar má búast við að hann afgreiði málið um miðjan nóvember. Þá verður liðið heilt ár frá því Sveitarfélagið Ölfus sendi það inn til lokaafgreiðslu Skipulagsstofnunar og staðfestingar umhverfisráðherra. Skipulagsstofnun sendi það tvívegis með athugasemdum til baka, í janúar og febrúar, áður en það var sent ráðherra til endanlegrar staðfestingar í aprílbyrjun, sem fyrr segir.

Meðal verkefna sem ráðamenn Ölfuss segja að tefjist vegna þessa dráttar er breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×